Umfjöllun: Katar - Ísland 1-1 │ Strákarnir köstuðu frá sér sigrinum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Strákarnir fagna marki Viðars. Það mark dugði ekki til sigurs.
Strákarnir fagna marki Viðars. Það mark dugði ekki til sigurs. Vísir/afp
Ísland kastaði frá sér sigri í uppbótartíma gegn Katar. Ísland var 1-0 yfir allt þar til Katar jafnaði í blálokin er íslenska vörnin svaf illa á verðinum.

Ég var persónulega mjög spenntur er leikurinn hófst enda risatækifæri fyrir marga leikmenn til þess að láta ljós sitt skína. Óhætt er að segja að það hafi ekki margir gert.

Fyrri hálfleikur hjá íslenska liðinu var dapur. Strákarnir voru í því að elta vel spilandi lið Katar og er Ísland sótti var það oftar en ekki hálfgerður göngubolti.

Þó svo Katarar hafi verið með boltann um 70 prósent leiktímans í fyrri hálfleik þá skapaði liðið sér ekki mörg tækifæri. Íslenska vörnin þétt en Ari Freyr Skúlason var reyndar heppinn sex mínútum fyrir hlé er hann braut af sér innan teigs en ekkert var dæmt.

Íslenska liðið skoraði þó úr sínu eina alvöru færi í fyrri hálfleik. Boltinn hrökk þá til Viðars Arnar Kjartanssonar af varnarmanni Katar. Viðar einn gegn markverði en hafði ekki mikinn tíma til þess að athafna sig.

Selfyssingurinn gerði geysilega vel í að afgreiða færið sitt upp í hornið. Loksins aftur landsliðsmark hjá honum og líklega þungu fargi létt af framherjanum sem hefur átt í vandræðum með að finna sig í bláu treyjunni.

Gylfi í baráttunni í dag.vísir/afp
Heimir gerði fjórar breytingar á liðinu í leikhléi og tók upp á að spila 5-4-1. Áhugaverð breyting og um að gera að prófa eitthvað nýtt.

Í þessari uppstillingu lá íslenska liðið vel til baka og leyfði Katörum sem fyrr að vera með boltann. Líklega var uppleggið að æfa varnarleik í þessari uppstillingu því íslenska liðið sýndi varla tilburði til þess að sækja. Ævintýralega leiðinlegt áhorfs en eflaust áhugavert fyrir þjálfarana að sjá hvernig þetta kom út.

Ef einhver fór langa ferð á salernið í síðari hálfleik þá missti sá hinn sami af nákvæmlega engu. Ekki fyrr en í uppbótartíma er íslenska vörnin svaf á verðinum. Gleymdi framherja Katar sem refsaði með marki. Algert óþarfi að kasta frá sér sigri með einbeitingarleysi í blálokin.

Fáir, sem voru að fá stórt tækifæri í dag, nýttu það vel. Jón Guðni spilaði allan leikinn og gerði það fumlaust. Flestir héldu sínu þokkalega en ekkert meira en það. Þeir sem hafa verið utan byrjunarliðsins þurfa að gera meira en þeir sýndu í dag til að setja pressu á þá sem eru fyrir framan þá í goggunarröðinni.

Kjartan Henry kom seint inn og var smá líf í honum en hann minnti einnig hraustlega á sig gegn Tékkum. Viðar Örn skoraði sem var ákaflega mikilvægt fyrir hann. Fallegt mark.

Uppskeran úr Katar-ferðinni eitt jafntefli og eitt tap. Einnig vonandi gott hópefli og svo að sjálfsögðu jákvætt að margir fái mínútur í bláa búningnum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira