Erlent

Hamfaraflóð eins og í Texas mun líklegri vegna loftslagsbreytinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Flóðin í Houston voru tröllvaxin. Vatnselgurinn var meiri en í síðustu þremur hamfaraflóðunum sem höfðu gengið yfir svæðið.
Flóðin í Houston voru tröllvaxin. Vatnselgurinn var meiri en í síðustu þremur hamfaraflóðunum sem höfðu gengið yfir svæðið. Vísir/AFP

Fyrsta rannsóknin þar sem reynt er að varpa ljósi á tengls loftslagsbreytinga við meiriháttar úrkomuviðburði eins og fellibylinn Harvey bendir til þess að úrhelli af því tagi hafi verið sexfalt líklegri vegna hnattrænnar hlýnunar. Stormar á þessu svæði verða enn tíðari á þessari öld komi menn ekki böndum á losun gróðurhúsalofttegunda.

Alls féllu um 83 sentímetrar regns á Houston-svæðinu þegar Harvey fór þar yfir í lok ágúst. Fordæmalítil flóðin ollu gríðarlegri eyðileggingu þar og víðar í Texas.

Loftslagsvísindamenn hafa talað á almennum nótum um að hnattræn hlýnun muni að líkindum gera fellibylji og rigningarveður öflugri jafnvel þó að þau verði ekki endilega tíðari. Ástæðan er meðal annars sú að hlýrra loft getur borið meiri raka en svalara.

Úr 2.000 ára endurkomu í hundrað ár
Með hjálp tölvuhermunar hefur Kerry Emanuel frá MIT-háskóla nú reynt að varpa ljósi á bein tengls loftslagsbreytinga við úrhellið í Texas.

Niðurstaða hans er að árlegar líkur á úrhelli eins og því sem fylgdi Harvey fari úr 1% á síðustu tveimur áratugum 20. aldarinnar í 18% fyrir síðustu tvo áratugi þessarar aldar. Sú niðurstaða byggist á forsendum svartsýnasta mats um þróun losunar gróðurhúsalofttegunda á þessari öld á vegum loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC).

Sé þessi þróun línuleg segir Emanuel að líkurnar á úrkomu á Houston-svæðinu eins og þeirri sem fylgdi Harvey séu sexfalt meiri nú en þær voru seint á síðustu öld. Í stað þess að gerast einu sinni á 2.000 ára fresti verði endurkomutími flóða af þessari stærðargráðu hundrað ár.

„Ég held að menn hafi breytt líkunum töluvert“ segir Emanuel við Washington Post um rannsóknina sem hann birti í PNAS, riti Bandarísku vísindaakademíunnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.