Erlent

Tala látinna og slasaðra hækkar á hamfarasvæðunum í Íran

Jóhann K. Jóhannsson skrifar

Tala látinna og slasaðra eftir jarðskjálftann við landamæri Írans og Íraks í fyrrakvöld hefur hækkað til muna. Mikil eyðilegging blasir við hjálparstarfsmönnum á þeim svæðum sem verst urðu úti en yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að kalla ekki eftir aðstoð alþjóðasamfélagsins.

Það var kalt aðra nóttina í röð á hamfarasvæðunum í héruðum Kúrda við landamæri Íran og Íraks enda vetur á þessum slóðum og hiti nærri frostmarki að næturlagi.

Jarðskjálfti af stærðinni 7,3 skók svæðið á sunnudagskvöld með gríðarlegri eyðileggingu þó meiri í Íran heldur en Írak en hamfarirnar eru þær mannskæðustu í heiminum á þessu ári.

Staðfest er að fleiri en fimm hundruð og fjörutíu eru látnir og fleiri en átta þúsund slasaðir og er óttast það þessar tölur komi til með að hækka. Einnig er staðfest að tólf þúsund íbúðarhús að minnsta kosti hafi hrunið til grunna og önnur þrjátíu þúsund eru óíbúðarhæf.

Hassan Rouhani, forseti Írans heimsótti hamfararsvæðið í dag og lofaði hann að uppbygging yrði hröð og reynt yrði að koma öllum til hjálpar.

„Ég mun tryggja þeim sem eiga um sárt að binda að ríkisstjórnun mun reyna eftir fremsta megni að leysa öll vandamál á sem fyrst,“ sagði Hassan Rouhani, forseti Írans við blaðamenn í dag.

Erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum til þeirra svæða sem urðu verst úti sökum skriðufalla og eyðileggingar. Þeir sem misstu heimili eru í tjöldum og er matur og vatn af skornum skammti. Hjálparsamtök áætla að sjötíu þúsund manns hafist við í neyðarskýlum eða undir berum himni.

Á annað hundrað eftirskjálftar hafa fylgt stóra jarðskjálftanum og voru þrír þeirra nokkuð stórir eða 4,3 til 4,5 að stærð og ollu þeir töluverðri hræðslu.

Yfirvöld í Íran hafa verið gagnrýnd fyrir að kalla ekki eftir aðstoð frá alþjóðasamfélaginu en einungis þrjátíu hópar frá Rauða hálfmánanum eru við hjálparstörf á vettvangi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.