Innlent

Stjórnvöld hafi unnið gegn hagsmunum neytenda

Höskuldur Kári Schram skrifar
Starfandi landbúnaðarráðherra segir að stjórnvöld hafi á umliðnum árum unnið gegn hagsmunum íslenskra neytenda með því að virða ekki ákvæði EES-samningsins um innflutning á fersku kjöti, eggjum og ýmsum mjólkurvörum. EFTA dómstólinn komst að þeirri niðurstöðu í morgun að íslenska ríkið hafi brotið gegn samningnum.

Samtök verslunar og þjónustu sendu fyrst kvörtun til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, árið 2011 þar sem þau töldu að lög og reglur varðandi innflutning á meðal annars fersku kjöti og eggjum væru ekki í samræmi við ákvæði EES samningsins um frjálsa vöruflutninga milli landa. EFTA dómstólinn tekur undir þetta í sinni niðurstöðu í morgun og telur að íslensk lög og reglur feli í sér viðbótartakmarkanir sem samræmist ekki alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að stjórnvöld verði að bregðast við þessum dómi með laga og reglugerðarbreytingum.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir starfandi landbúnaðarráðherra tekur undir þetta.

„Íslensk stjórnvöld hafa brotið gegn EES samningnum og um leið gegn hagsmunum íslenskra neytenda,“ segir Þorgerður.

Hún segir að innflutningur á fersku kjöti stuðli að aukinni samkeppni og lækkuðu vöruverði til neytenda. „En eftir stendur að íslensk stjórnvöld hafa á umliðnum árum brotið gegn EES-samningnum og það er vont. Við verðum að fara að breyta þessu,“ segir Þorgerður. 

Bændasamtökin harma hins vegar þessa niðurstöðu í yfirlýsingu sem þau sendu frá sér í dag. Þau telja að þessi innflutningur getið aukið líkur á búfjársjúkdómum og valdið miklu tjóni.

Þorgerður segir að það geti skaðað útflutning á íslenskum matvælum ef stjórnvöld hér á landi uppfylla ekki alþjóðlegar skuldbindingar.

„Það liggja fyrir skýrslur sem sýna fram á að helsta [sjúkdóma]hættan er ekki í gegnum innflutning á fersku kjöti. Að sjálfsögðu munum við viðhalda miklu og sterku eftirliti og fylgjast með því að það sé allt skoðað í útlöndum líka. En hættan fyrir íslenskan landbúnað er fyrst og fremst í gegnum ferðamenn og í gegnum innflutning á grænmeti,“ segir Þorgerður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×