Skoðun
Sigrún Hjartardóttir, verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka.

Besta ár sögunnar?

Sigrún Hjartardóttir skrifar

Það hefur varla farið fram hjá neinum núlifandi Íslendingi að ferðaþjónusta hefur á undanförnum árum vaxið frá því að vera nokkurs konar sumarvertíð yfir í að vera stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Þrátt fyrir óhjákvæmilega vaxtarverki í kjölfar ævintýralegrar aukningar getum við í heildina verið nokkuð sátt við hvernig til hefur tekist við að þróa og aðlaga þjónustuframboðið. Þannig hafa fjöldamörg ný og spennandi fyrirtæki orðið til og um tíma virtist sem engin leið væri að tapa peningum á því að starfrækja félag í ferðaþjónustu. Það er þó vitaskuld einföldun og að baki liggur mikil vinna og einurð fólks sem gjarnan hefur mikla ástríðu fyrir því sem það gerir. Fyrir marga er ferðaþjónusta næstum því lífsstíll fremur en starf.

En nú eru ákveðnar blikur á lofti í greininni. Sterkari króna og miklar kostnaðarverðshækkanir, einkum launakostnaður, eru farnar að setja strik í reikninginn í rekstri sem er í eðli sínu fremur mannaflsfrekur. Þá eru vísbendingar um að búið sé að verðleggja áfangastaðinn Ísland út af ákveðnum mörkuðum. En hverjar sem ástæðurnar eru er það sannarlega eðlilegur hluti þróunar atvinnugreina að fara í gegnum þrengingar. Þær eru raunar oftar en ekki hreyfiafl breytinga og sameininga fyrirtækja. Til verða stærri og öflugri einingar með sterkari rekstrargrundvöll og meira bolmagn til að takast á við sveiflur.

Vel framkvæmdar sameiningar ættu að öðru óbreyttu að spara kostnað við ýmsa miðlæga þjónustu, s.s. bókanir, sölu- og markaðsmál, bókhald og fjármál. Að auki geta sameinuð félög í einhverjum tilfellum nýtt rekstrarfjármuni betur og boðið viðskiptavinum stærri hluta af virðiskeðjunni. Framangreint gerir það að verkum að rými skapast til sérhæfingar í störfum sem aftur frelsar tíma fyrir eigendur og/eða stjórnendur til að einblína á kjarnareksturinn og stefnu félagsins fram á við. Með því næst meiri yfirsýn og líkur aukast á betri árangri. Það er auðveldara en marga grunar að eiga „besta ár sögunnar“ í sölu og tekjum en skila engu að síður litlum hagnaði, eða jafnvel tapi, af því að yfirsýn yfir rekstrarkostnaðinn skorti.

Höfundur er verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka. 

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Tíminn

Guðmundur Brynjólfsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.