Viðskipti innlent

Nýir eigendur vilja skoða sölu á hlut í Bláa lóninu

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
EBIDTA-hagnaður Bláa lónsins hefur þrefaldast á fimm árum.
EBIDTA-hagnaður Bláa lónsins hefur þrefaldast á fimm árum. Vísir/GVA
Kanadíska orkufyrirtækið Inn­ergex Renewable Energy, sem keypti nýverið Alterra, sem á 53,9 prósenta hlut í HS Orku, hyggst endurskoða eignarhald HS Orku á 30 prósenta hlut fyrirtækisins í Bláa lóninu, að því er fram kemur í fjárfestakynningu stjórnenda Innergex. Telja stjórnendurnir að starfsemi Bláa lónsins falli ekki að kjarnastarfsemi íslenska orkufyrirtækisins.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu setti HS Orka hlut sinn í Bláa lóninu í söluferli um miðjan maímánuð og var það sjóður í stýringu Blackstone, eins stærsta fjárfestingarsjóðs heims, sem átti hæsta tilboðið, um 11 milljarða króna.

Fulltrúar íslenskra lífeyrissjóða, sem eiga 33,4 prósent í HS Orku í gegnum samlagshlutafélagið Jarðvarma, ákváðu hins vegar að beita neitunarvaldi sínu og höfnuðu tilboðinu. Var haft eftir Davíð Rúdólfssyni, stjórnarformanni Jarðvarma, að tilboð Blackstone hefði ekki endurspeglað virði Bláa lónsins.

Fram kemur í nýlegri afkomukynningu Alterra að nokkur tilboð að virði yfir 90 milljónir evra, sem jafngildir um 10,9 milljörðum króna, hafi borist í hlut HS Orku í Bláa lóninu í sumar.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×