Innlent

Ingimundur ekki vanhæfur þrátt fyrir tap á hlutabréfum Glitnis

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Ingimundur Einarsson er ekki vanhæfur samkvæmt úrskurði Hæstaréttar.
Ingimundur Einarsson er ekki vanhæfur samkvæmt úrskurði Hæstaréttar. Vísir/Pjetur

Hæstiréttur komst í dag að þeirri niðurstöðu að Ingimundur Einarsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, væri ekki vanhæfur til þess að dæma í Stím-málinu svokallaða, þrátt fyrir að hafa átt hlutabréf í Glitni og tapað á þeim. Í úrskurðinum segir að Ingimundur hafi engu að síður vanrækt tilkynningarskyldu með því að tilkynna ekki um eign sína í þremur bönkum.

Í Stím-málinu svokallaða voru þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Sögu Capital ákærðir og dæmdir vegna lánveitingar Glitnis til hlutabréfakaupa í FL Group og Glitni.

Lárus hlaut þar fimm ára fangelsisdóm, Jóhannes tveggja ára dóm og Þorvaldur átján mánaða fangelsisdóm, en þeir áfrýjuðu allir dómi héraðsdóms til Hæstaréttar vegna meints vanhæfis. Sá dómur var ógiltur og honum vísað heim í hérað.

Tekist á um hæfi dómara
Ýmislegt hefur gengið á í tengslum við hið svokallaða Stím-mál og hafa þremenningarnir krafist þess að ákveðnir dómarar vikju úr störfum sínum vegna vanhæfis. Hæstiréttur ógilti upprunalegan dóm vegna vanhæfis Sigríðar Hjaltested, héraðsdómara. Var þar að finna nafn barnsföður hennar í gögnum málsins og þegar dómur féll hafi hann verið með stöðu sakbornings í þremur málum hjá sérstökum saksóknara sem síðar voru felld niður.

Þegar málið fór aftur fyrir héraðsdóm kröfðust sakborningarnir þess að Ingimundur Einarsson, Hrefna Sigríður Briem og Símon Sigvaldason yrðu úrskurðuð vanhæf. Símon og Hrefna fyrir það að hafa dæmt í málinu sem var dæmt ógilt. Krafan um að Ingimundur skyldi úrskurðaður vanhæfur í dómsmálinu byggði á því að hann hafi á sínum tíma átt hlutabréf í stóru bönkunum þremur, Glitni, Landsbankanum og Kaupþingi. Sakborningarnir sögðu Ingimund hafa brugðist tilkynningarskyldu sinni og að upphæðir vegna eigna hans hafi verið verulegar.

Hæstiréttur hafnaði engu að síður þeirri kröfu um að Ingimundur myndi víkja úr sæti sem dómstjóri málsins en hann hafði einnig komist að þeirri niðurstöðu að Símon Sigvaldason væri ekki vanhæfur til þess að dæma í málinu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.