Innlent

Símaat í neyðarlínu ræsti út alla viðbragðsaðila

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður var á vettvangi en um símaat var að ræða.
Mikill viðbúnaður var á vettvangi en um símaat var að ræða. Vísir/Ernir

Tilkynning sem neyðarlínunni barst í kvöld um að einstaklingur hefði farið í sjóinn hjá Sæbraut við Kirkjusand reyndist vera gabb. Varðstjóri hjá lögreglu segir málið háalvarlegt, enda allir viðbragðsaðilar ræstir út þegar slík tilkynning berst. Tvær konur hafa verið handteknar vegna málsins.

„Þetta er bara gabb. Einhver að gera grín í lögreglu og gera grín í viðbragðsaðilum. Það er búið að handtaka viðkomandi og hann er á leiðinni í skýrslutöku,“ segir Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.

Vísir/Ernir

Þannig að þið lítið þetta mál alvarlegum augum?

„Mjög alvarlegum augum. Að hringja í 112 og segja að einhver hafi stokkið í sjóinn. Þetta er háalvarlegt mál. Búið að ræsa út sjúkraflutningamenn og aðra viðbragðsaðila.“

Mikill viðbúnaður var við Sæbraut fyrr í kvöld, enda leit erfið í myrkri og þá sérstaklega í sjó.

„Komnir tveir bátar og byrjaðir að leita. Allt viðbragð fór bara af stað þegar það kom tilkynning um að aðili sé farinn í sjóinn,“ segir Rafn Hilmar.

Uppfært 21:58:

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna málsins:

Fyrr í kvöld barst tilkynning um að fólk hafi farið í sjóinn við Sæbraut gegnt Kirkjusandi. Lögregla, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og sjóflokkar björgunarsveita voru kölluð út með hæsta forgangi, í ljósi alvarleika tilkynningarinnar. Eftir að enginn fannst var reynt að ná í tilkynnanda aftur en fljótt eftir það kom upp sá grunur að um gabb væri að ræða. Lögreglan hefur handtekið tvær konur á fertugsaldri vegna málsins og eru þær vistaðar í fangaklefa og bíða yfirheyrslu.Tengdar fréttir

Leitað í sjónum við Sæbraut

Litlar upplýsingar fást um málið en neyðarlínunni barst tilkynning fyrr í kvöld sem leiddi til þess að ákvörðun var tekin um að leita í sjónum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.