Enski boltinn

Ákall Piers Morgan til Harry Kane: Komdu aftur heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane.
Harry Kane. Vísir/Getty
Fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan er einn þekktasti stuðningsmaður Arsenal og fer ekkert í felur með það. Hann hefur líka sterkar skoðanir á liðinu og er óhræddur að láta hluti flakka á samfélagsmiðlum ef hann er ekki sáttur við spilamennsku eða gengi liðsins.

Framundan er nágrannaslagur Arsenal og Tottenham um næstu helgi og að því tilefni var Piers Morgan gestur í upphitunarþætti Sky Sports fyrir leikinn. Þátturinn verður sýndur fyrir leikinn en viðtalið var tekið upp á dögunum.

Sky Sports hitaði upp fyrir þáttinn með því að birta brot úr viðtalinu við Piers Morgan en hann var þar að nota tækifærið  og biðla til Harry Kane að koma til Arsenal.

Það kom nefnilega í ljós að Harry Kane eyddi einu ári í knattspyrnuakademíu Arsenal þegar hann var strákur.

„Harry Kane er frábær. Ég tel að hann sé heimsklassa leikmaður,“ sagði Piers Morgan en það má nálgast myndbrotið hér.

„Sem betur fer er hann svo góður að Real Madrid eða Barcelona munu kaupa hann fyrir næsta tímabil þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af honum mikið lengur,“ sagði Morgan.

Piers Morgan minnti áhorfendur Sky Sports síðan á Arsenal-tenginguna á ferli Harry Kane og virtist um leið vera farinn að vinna í því að Kane klæddist aftur Arsenal-treyjunni í framtíðinni.

„Við náðum því með Sol Campbell og við ættum því að geta það aftur. Harry Kane er „skytta“ og við munum ná honum aftur. Harry, við þurfum á þér að halda. Komdu aftur heim,“ sagði Morgan.

Harry Kane hefur skorað 13 mörk í 14 leikjum í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni á þessu tímabili en öll þessi þrettán mörk hafa komið í síðustu ellefu leikjum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×