Viðskipti innlent

Fasteignafélag í rekstri GAMMA hagnast um 775 milljónir

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Upphaf hefur byggt fjölmargar íbúðir í Reykjavík.
Upphaf hefur byggt fjölmargar íbúðir í Reykjavík. vísir/vilhelm
Upphaf fasteignafélag, sem er í eigu fagfjárfestasjóðsins Novus sem rekinn er af GAMMA Capital Management, hagnaðist um 775 milljónir króna í fyrra. Jókst hagnaðurinn verulega frá fyrra ári þegar hann nam um 57 milljónum króna.

Félagið, sem er alhliða fjárfestir á íbúðamarkaði, þ.e. þróar, byggir, leigir og selur íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, átti fjárfestingareignir upp á 6,2 milljarða króna í lok síðasta árs. Minnkuðu þær umtalsvert frá fyrra ári, en þær voru 8,6 milljarðar í lok árs 2015. Var kostnaðarverð seldra eigna 2,6 milljarðar króna í fyrra, að því er fram kemur í ársreikningi félagsins.

Þá nam matsbreyting fjár­festingar­eigna félagsins liðlega 1,4 milljörðum króna á árinu. Heildareignir Upphafs námu ríflega 10,1 milljarði króna í lok síðasta árs en þær jukust óverulega á árinu.

Stjórn Upphafs leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á þessu ári vegna rekstrarársins í fyrra að svo stöddu. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×