Innlent

Áfram fundað um stjórnarmyndun í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það lá vel á formönnunum þremur, þeim Katrínu Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni, við upphaf fundar þeirra í gærmorgun.
Það lá vel á formönnunum þremur, þeim Katrínu Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni, við upphaf fundar þeirra í gærmorgun. vísir/vilhelm
Formenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna munu eiga fund fyrir hádegi í dag í formlegum viðræðum flokkanna þriggja um myndun ríkisstjórnar.

Þá mun annar hópur þar sem fulltrúar allra flokka koma saman einnig funda í dag og verður þar farið yfir málefnin.

Samkvæmt heimildum Vísis miðar viðræðunum ágætlega en í gær fóru formennirnir og fulltrúar flokkanna yfir ríkisfjármálin.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttastofu í gær að ef vel gangi í viðræðunum gæti stjórnarsáttmáli legið fyrir í lok vikunnar.

Það er í samræmi við þann tímaramma sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti formönnunum þremur ef marka má yfirlýsingu hans frá því á mánudag þar sem sagði að það ætti að liggja fyrir í lok vikunnar hvort viðræðurnar beri árangur.

Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að ágreiningur gæti komið upp um atvinnumál og umhverfismál í viðræðunum og er það haft eftir ónefndum þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Þeir þingmenn flokkanna þriggja sem blaðið ræddi við eru engu að síður nokkuð bjartsýnir á stjórnarmyndunarviðræðurnar. Þá telja þeir að samstarf VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sé besti möguleikinn til að auka stöðugleika í stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Ágreiningur gæti orðið um atvinnumál og umhverfismál

Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna eru bjartsýnir á stjórnarmyndunarviðræðurnar sem hófust formlega í gær. Telja stjórn flokkanna geta aukið stöðugleika í stjórnmálum.

Teikna upp ramma stjórnarsáttmálans

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokks vonast til þess að hægt verði að klára nýjan stjórnarsáttmála í lok þessarar viku. Formlegar stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar hófust í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×