Enski boltinn

Jürgen Klopp lagður inn á spítala

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var ekki á æfingu liðsins í dag. Ástæðan er að hann er kominn á sjúkrahús.

Liverpool stuðningsmenn hafa áhyggjur af kappanum en vonandi er aðeins um varúðarráðstafanir að ræða.

Klopp leið hinsvegar það illa í dag að hann ákvað að leita aðstoðar á sjúkrahúsi í Liverpool þar sem hann hefur síðan gengist undir rannsóknir í allan dag. Rannsóknirnar munu væntanlega standa fram á kvöld.

Liverpool Echo segir frá þessu á heimasíðu sinni en það er ekki vitað hvað nákvæmlega angra þýska knattspyrnustjórann.





Klopp hefur áður farið á sjúkrahús í stjóratíð sinni hjá Liverpool en hann fór í botnlangaðgerð í febrúar 2016. Klopp missti þá af 2-2 jafnteflisleik við Sunderland en þeir Pep Lijnders, Peter Krawietz og Zeljko Buvac stýrðu liðinu í fjarveru hans.

Klopp var á ferðinni í landsleikjahléinu en hann fór þá í heimsókn til Suður Afríku.

Hinn fimmtugi Klopp átti að vera gestur í útgáfupartý í kvöld í tengslum við nýja ævisögu Kenny Dalglish, „Kenny“ en ekkert verður af því að hann mæti þangað.

Það er heldur ekki vitað hvort að Klopp geti mætt á reglulegan blaðamannafund sinn á morgun í tengslum við leiki helgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×