Leikjavísir

Reiðin gagnvart peningaplokki EA dvínar ekki

Samúel Karl Ólason skrifar
Í leiknum munu spilarar berjast við aðra spilara á netinu og taka þátt í sögufrægum orrustum úr söguheimi Star Wars.
Í leiknum munu spilarar berjast við aðra spilara á netinu og taka þátt í sögufrægum orrustum úr söguheimi Star Wars. DICE
Reiðin gagnvart nýjasta leik tölvuleikjafyrirtækisins EA, Star Wars Battlefront 2, ætlar ekki að dvína. Leikurinn, sem kemur út á föstudaginn, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir hve erfitt, tímafrekt og/eða dýrt það geti verið fyrir notendur að opna á allt það sem leikurinn hefur upp á að bjóða. Þar er um að ræða vopn, viðbætur við vopn, hetjur og ýmislegt fleira.

Í leiknum munu spilarar berjast við aðra spilara á netinu og taka þátt í sögufrægum orrustum úr söguheimi Star Wars.

Spilarar leiksins munu allt í allt geta opnað fyrir 324 hluti. Hægt er að opna fyrir þá með því að spila leikinn og fá þannig peninga sem nýta má til að opna fyrir áðurnefnt efni. Einnig er hægt að eyða alvöru peningum til að kaupa ákveðna kassa (loot boxes), án þess að þó að vita hvað sé í kössunum í raun og veru.

Sjá einnig: Stjörnustríðshetjur verða ódýrari til að sefa reiði tölvuleikjaspilara



Einn notandi Reddit sem segist hafa gripið í vasareikni og farið yfir hvað það gæti tekið langan tíma og/eða kostað mikla alvöru peninga. Farið er yfir útreikninga hans á Polygon.



Til þess að opna fyrir efnið þarf að opna 3.111 loot boxes. Til að eignast peninga leiksins til að kaupa þá kassa þarf að spila í 4.528 klukkustundir eða eyða um 217 þúsund krónum til að kaupa kassana með alvöru peningum. Höfundur útreikninganna tekur þó fram að líklega séu þessar tölur þó of lágar.

Sagði útreikninga ekki rétt

John Wasilczyk, frá EA, svaraði spurningum netverja á Reddit í dag, og hann sagði að fyrirtækið gerði ráð fyrir því að það myndi taka spilara mun styttri tíma að opna á efni leiksins. Hann vildi ekki gefa upp raunverulegar tölur þrátt fyrir að vera ítrekað beðinn um það. Þá voru einhverjir sem bentu á að Paul Keslin, einn af framleiðendum leiksins, hefði nýverið sagt á Youtube að starfsmenn EA vissu í raun og veru ekki hvernig tölurnar litu út í alvörunni.



Borga til að vinna

EA hefur ekki einungis verið gagnrýnt fyrir að reyna að okra á notendum. Það sem fer einnig fyrir brjóstið á fólki, er að þeir sem opni veskið og greiði fyrir áðurnefnd loot boxes og jafnvel mikið af þeim, muni vera með töluvert forskot á aðra spilara leiksins sem vilji ekki eða hafa ekki efni á því að eyða meiri peningum í leikinn en hann kostar.

BBC ræddi við sérfræðinginn Ed Barton sem segir að þessar venjur að rukka notendur aukalega fyrir efni í leikjum, sem kallast á ensku micropayments, sé komið úr snjalltækjaleikjum. Munurinn sé hins vegar sá að þar séu yfirleitt ókeypis að sækja leikina og spila þá.

Hann segir þessar smágreiðslur hafa verið að færast í aukana í tölvuleikjum sem notendur greiða fullt verð fyrir.

„Ágreiningsefnið er: „Ég er búinn að borga fullt verð, leyfið mér að njóta vörunnar,“ segir Barton.

Ota fjárhættuspili að notendum

EA hefur einnig verið gagnrýnt fyrir að ota fjárhættuspili að notendum og þar á meðal börnum. Þegar notendur verja alvöru peningum til að kaupa áðurnefnd Loot boxes, vita þeir ekki hvað þeir séu að kaupa. Með því að hafa það sem getur komið úr þeim kössum mis-notvænlegt sé verið að ýta undir að notendur kaupi fleiri og fleiri slíka kassa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×