Viðskipti innlent

Valitor greiddi 1.450 milljónir fyrir bresk fyrirtæki

Hörður Ægisson skrifar
Viðar Þorkelsson er forstjóri Valitor.
Viðar Þorkelsson er forstjóri Valitor. Valitor
Greiðslukortafyrirtækið Valitor greiddi tæplega 1.450 milljónir króna fyrir bresku greiðslumiðlunarfyrirtækin Chip & PIN Solutions og IPS Ltd. en tilkynnt var um kaup Valitor á félögunum með skömmu millibili fyrr á árinu.

Greint er frá kaupverðinu í árshlutareikningi Arion banka, sem er eigandi alls hlutafjár í Valitor, sem var birtur í fyrradag. Þar segir að ekki sé búið að ganga frá greiðslu alls kaupverðsins en það verði gert í síðasta lagi á fyrri helmingi næsta árs.

Fram kom í tilkynningu Valitor í byrjun júlí síðastliðnum, vegna kaupanna á Chip & PIN Solutions, að kaupin myndu breikka til muna þann viðskiptavinahóp Valitor í Bretlandi sem fyrirtækið þjónar milliliðalaust. Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, sagði kaupin ?strategískt mjög þýðingarmikil fyrir Valitor“ en með þeim bættust sjö þúsund fyrirtæki í viðskiptavinahóp félagsins.

Hagnaður Valitor í fyrra nam samtals 271 milljón króna og var heildarvelta félagsins rúmlega 14,2 milljarðar. Greint var frá því í vikunni að tuttugu starfsmenn Valitor á Íslandi myndu missa vinnunna vegna skipulags- og hagræðingaraðgerða. Ellefu störf myndu færast frá Íslandi til Bretlands en Viðar sagði ástæðuna fyrir þessum aðgerðum vera versnandi rekstrarumhverfi á Íslandi. Fyrirtækið sé með stærstan hluta tekna sinna í erlendri mynt en á sama tíma hafi krónan verið í sögulegu hámarki og þá spili inn í innlendar kostnaðarhækkanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×