Enski boltinn

Styttist í endurkomu sænska ljónsins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan heldur um hnéð eftir að hann meiddist.
Zlatan heldur um hnéð eftir að hann meiddist. Vísir/Getty
Zlatan Ibrahimovic, framherji Manchester United, mun spila með liðinu áður en árið er liðið en þetta staðfestir José Mourinho, í viðtali við Sky Sports.

Zlatan hefur ekki spilað frá því í byrjun árs eftir að hann sleit krossband en hann gæti verið orðið klár fyrir stórleikinn á móti Manchester City í næsta mánuði.

Götublaðið The Sun gengur enn lengra í dag og segir að bæði hann og Paul Pogba gætu verið í hópnum sem mætir Newcastle í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Zlatan sneri aftur til æfinga í október og sagði Mourinho þá að hann hefði á tilfinningunni að Svíinn myndi snúa aftur fyrr en áætlað var.

„Zlatan er ljón. Hann er baráttuhundur. Þannig er best að lýsa honum. Hann er alltaf reiður og það er ástæðan fyrir því að það styttist í endurkomu hans,“ segir Mourinho.

„Eins og við bjuggumst við var hann ekki jafnlengi að ná sér. Við sögðum það fyrir nokkrum vikum. Hann snýr aftur árið 2017. Þetta er alveg merkilegur bati,“ segir José Mourinho.

Zlatan Ibrahimovic var markahæsti leikmaður United á síðustu leiktíð með 28 mörk en hann skrifaði undir nýjan eins árs samning í ágúst og er í leikmannahópi félagsins í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×