Skoðun

Iðnnám á háskólastig

Magnús Árni Skjöld Magnússon skrifar
Í Fréttablaðinu þ. 16. nóv. s.l. er grein eftir Sigurð Hannesson framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, þar sem hann kallar réttilega eftir aukinni virðingu fyrir iðnnámi. Mig langar í því sambandi að leggja nokkur orð í belg um námsfyrirkomulag á Íslandi almennt, sem snertir með beinum hætti ákall Sigurðar. Það snertir líka þann tilfinnanlega skort á ungmennum sem leggja iðnnám fyrir sig, sem er áhyggjuefni.

Framhaldsskólanám á Íslandi fer að mestu fram á tíma sem námsmenn eru skilgreindir lögum samkvæmt sem „börn“ og með fyrirhugaðri styttingu framhaldsskólanáms verður það í raun bara á síðasta námsári í framhaldsskóla sem nemendur eru lagalega sjálfráða. Samfélag nútímans er orðið svo flókið og valkostir sem ungt fólk stendur frammi fyrir svo fjölbreytilegir að ætla má að þessum námsárum barnanna okkar sé best varið í tiltölulega opið og almennt nám sem undirbýr unga fólkið með sem allra bestum hætti fyrir líf í þessum fjölbreytileika, en loki það ekki inni í einhverskonar botnlanga sem takmarkar val þeirra síðar. Segja má að eins og iðnnámi á Íslandi er fyrirkomið í dag þá sé það þess konar botnlangi.

Stúdentspróf er í dag aðgöngumiði að öllu því hlaðborði valkosta sem ungt fólk stendur frammi fyrir. Því er engin skynsemi í öðru fyrir ungt fólk sem vill halda leiðum fyrir sig opnum en að ljúka stúdentsprófi.

Því langar mig að leggja eftirfarandi til, sem gæti í raun haft margþætt áhrif á þessi viðfangsefni:

-          Grunnskólinn verði styttur um eitt ár og nemendur byrji sem því nemur fyrr í framhaldsskóla.

-          Skólaskylda verði framlengd út þann tíma sem einstaklingar eru skilgreindir sem börn (til 18 ára aldurs), þannig að með þeirri styttingu framhaldsskólans sem þegar hefur verið ráðist í útskrifist allir nemendur með stúdentspróf að lokinni skólaskyldu við átján ára aldur.

-          Jafnhliða þessu verði iðnnám fært upp á eiginlegt háskólastig í þar til gerðum fagháskólum. Það þýðir að þeir sem sinna kennslu á því stigi þurfa jafnframt að efla þekkingu sína með reglubundnum hætti eins og háskólakennarar gera með rannsóknum eða rannsóknatengdu starfi líkt og gert er í atvinnutengdum háskólum (applied science universities) víða um lönd.

Undanfarna áratugi hafa fjöldamargar námsgreinar sem skilgreina má sem „starfsnám“ verið færðar upp á háskólastig og má t.d. nefna kennaranám, hjúkrunarnám, sjúkraliðanám, listnám, leikskólakennaranám og viðskiptanám. Margar þeirra eru að auki greinar sem konur sækja í fremur en karlar (það er viðfangsefni í sjálfu sér) og hefur það stuðlað að óeðlilegum kynjahalla þegar kemur að háskólanámi, þar sem konur eru í talsverðum meirihluta þeirra sem slíkt nám stunda og því ljúka.

Með þessum hætti myndu mörg markmið nást í einu. Í fyrsta lagi væru öll börnin okkar með aðgöngumiða að hvaða námi sem er að aflokinni skólaskyldunni (stúdentspróf). Í öðru lagi yrði brottfall úr framhaldsskóla jaðartilvik, en það er í dag talsvert vandamál á Íslandi. Í þriðja lagi myndu Íslendingar útskrifast úr háskóla (og framhaldsskóla) á sama tíma og flestar nágrannaþjóðir okkar gera. Í fjórða lagi myndi þetta setja iðnnám á sama stað í skólakerfinu og annað starfsnám og veita því þann sess í okkar menntakerfi sem það á skilið, auk þess að gera starf kennarans í þessum greinum áhugaverðara með áherslunni á rannsóknir og símenntun. Einnig myndi þetta stuðla að sjálfstæðri framþróun fagsins innan iðn- og tækniháskólans (-háskólanna). Í fimmta lagi myndi þetta koma til móts við þann kynjahalla sem er á háskólastigi og fjölga ungum körlum með háskólapróf.

Er ekki orðið tímabært, í stað þess að láta iðnnám á Íslandi fjara út á námsstigi sem mikill fjöldi íslenskra námsmanna og foreldra telja að eigi að leggja undir almennt undirbúningsnám fyrir lífið, að veita því einfaldlega þann sess sem það á skilið? Meðal starfsnáms á háskólastigi?

Höfundur er dósent og f.v. háskólarektor




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×