Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Valur 76-90 | Valsmenn völtuðu yfir ÍR-inga

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/anton
Valsmenn tóku ÍR-inga í karphúsið í Hertz-hellinum í Seljaskóla í kvöld og fóru með 76-90 sigur í sjöundu umferð Domino’s deildar karla í körfubolta.

Gestirnir settu tóninn strax í fyrsta leikhluta og unnu hann með sautján stigum. ÍR-ingar komust aðeins betur inn í leikinn eftir það en náðu aldrei að vinna upp muninn og töpuðu að lokum með fjórtán stigum.

Breiðhyltingar voru ekki eins og vaninn er á sínum heimavelli fyrir framan syngjandi og trallandi Ghetto hooligans, virtust andlausir og það var mikið um mistök í þeirra leik. Valsmenn spiluðu hins vegar virkilega vel, varnarleikur þeirra var hélt ÍR-ingum alveg niðri og var frammistaða þeirra það góð að hinir margrómuðu Hooligans stóðu upp fyrir þeim undir lok leiksins.

Í þriðja leikhluta kviknaði aðeins í heimamönnum og leit út fyrir að þeir væru að byggja grunn að ótrúlegri endurkomu. Það varð hins vegar ekki neitt úr því, Valsmenn svöruðu um hæl og ÍR-ingar héldu áfram að gera dýr mistök og hitta illa.

Annar deildarsigurinn í röð hjá nýliðum Vals, en ÍR-ingar láta toppsætið í hendur Tindastóls.

Afhverju vann Valur?

Frábær vörn í fyrsta leikhluta lagði grunninn að sigrinum. Þeir skoruðu 32 stig á móti 15 stigum ÍR-inga og eftir það þá var ljóst að heimamenn þyrftu að hafa sig alla við til þess að ná í sigur. Valsmenn héldu leikinn út, spiluðu vel og náðu að sigla sigrinum heim þrátt fyrir að hleypa smá spennu í leikinn í seinni hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Austin Magnus Bracey átti virkilega flottan leik fyrir Valsmenn. Hann kom með sterkar körfur á mikilvægum augnablikum og endaði með 19 stig. Urald King spilaði einnig mjög vel sem og Oddur Birnir Pétursson og Illugi Steingrímsson.

Hvað gekk illa?

Allt í leik ÍR gekk illa í kvöld. Þeir voru að hitta illa úr opnum skotum, mikið af misheppnuðum sendingum og sóknarleikurinn bar lítinn árangur. Þá var varnarleikur þeirra oft á tíðum einfaldlega enginn, Valsmenn sundurspiluðu þá og löbbuðu í gegnum teiginn og að körfunni.

Hvað gerist næst?

Áttunda umferðin hefst eftir aðeins þrjá daga, en á sunnudaginn fara ÍR-ingar til Akureyrar og mæta Þórsurum. Valsmenn fá einn dag til viðbótar í hvíld, þeir mæta í Þorlákshöfn og mæta hinum Þórsurunum á mánudagskvöld.

Ágúst: Liðsheildinn réði úrslitum

„Vil kannski ekki meina að allt hafi gengið upp, en það gekk margt upp,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals eftir leikinn. „Þetta var flottur leikur hjá okkur á móti mjög góðu ÍR liði.“

Valsmenn spiluðu virkilega sterka vörn í dag og játti Ágúst því að það hafi verið upplagið.

„Það er það sem við höfum verið að reyna að gera í allan vetur. Varnarlega höfum við verið nokkuð sáttir með okkur sjálfa.“

„Margir koma og leggja í púkkin, það eru allir sem koma inn á og gera eitthvað jákvætt fyrir liðið, það er kannski það sem er munurinn á þessu.“

„Rosa gaman að koma hingað, með þessa stuðningsmenn. Það var svolítið nýtt fyrir okkur og sást nokkrum sinnum að skotklukkan rann út og samskiptin voru erfiðari en í mörgum leikjum. Við ætluðum að njóta þess að vera hérna og við gerðum það,“ sagði Ágúst Björgvinsson

Borche: Þurfum að spila vörn í 40 mínútur

Borche Ilievski, þjálfari ÍR-inga, var ekki sáttur með sína menn í kvöld. „Ég varaði liðið mitt við því alla vikuna að Valur er mjög agað lið. Þeir eru skipulagðir, líkamlega sterkir og færir í körfubolta,“ sagði Borche eftir leikinn.

„Við opnuðum leikinn vel, en við héldum okkur ekki við okkar leikáætlun. Sóknarskipulagið var ekki að virka, við vorum stressaðir og við leyfðum þeim að skora 50 stig í fyrri hálfleik.“

ÍR-ingar skoruðu fyrstu sex stig leiksins, en töpuðu fyrsta leikhluta 15-32 og voru 33-54 undir í hálfleik.

„Liðið sem neyðist til að spila í vörn getur ekki fengið á sig 50 stig í fyrri hálfleik. Sumir leikmenn okkar voru ekki að fylgja skipulaginu og við vorum stressaðir.“

„Við þurfum að spila vörn í 40 mínútur.“

Valsmenn spiluðu varnarleikinn mjög vel í kvöld og áttu ÍR-ingar fá svör og gekk illa að skora.

„Við tókum slæmar ákvarðanir og vorum að láta ákvarðanir dómaranna trufla okkur.“

„Við þurfum að fara yfir leikinn og greina hann og læra af mistökum okkar.“

En hvað getur Borche tekið jákvætt út úr leiknum?

„Ég get ekkert jákvætt tekið úr leiknum. Við stóðum okkur ekki, hvorki sóknarlega né varnarlega,“ sagði Borche Ilievski.

Sigurður Dagur: Hooligans geggjaðir

„Það er mjög sætt að vinna hérna,“ sagði Sigurður Dagur Sturluson, leikmaður Vals. „Þetta er topplið, heitasta liðið í dag, og risa stórt hjá okkur að vinna.“

Hvað var það sem skilaði sigrinum fyrir Val?

„Fyrri hálfleikur var geggjaður hjá okkur, og byrjun seinni. Síðan lendum við í því að missa þetta aðeins, en við náðum að klára leikinn.“

„Erum að ná að gera það sem við vorum ekki að ná að gera í fyrstu umferðunum, sem er að loka leikjum.“

„Ógeðslega gaman,“ svaraði Sigurður aðspurður hvað honum findist um leikinn. „Ég hrósa þessum Hooligans-gæjum. Þeir eru geggjaðir,“ sagði Sigurður Dagur Sturluson.

Matthías: Ekkert jákvætt

„Hræðilegur sóknarleikur, lélegur varnarleikur í fyrri hálfleik,“ voru svör Matthíasar Orra Sigurðarsonar með hvað fór úrskeiðis í leiknum.

„Ótrúlegt en satt var eitthvað andleysi í okkur sem sló okkur út af laginu í byrjun. Þeir unnu okkur á okkar eign leik, voru að djöflast í okkur varnarlega og spila rosalega vel í fyrri hálfleik.“

Það leit út fyrir að ÍR-ingunum tækist að koma til baka, og sagði Matthías þá hafa haft trú á því, en fæturnir ekki staðið undir þeim.

„Það tekur sinn toll að spila á móti svona varnarleik í fjóra leikhluta, sérstaklega þegar þú ert að elta.“

Matthías var sammála þjálfaranum í að ekkert jákvætt væri hægt að taka úr leiknum, svar hans var einfaldlega „nei.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira