Umfjöllun og viðtöl: Höttur - Keflavík 66-92 | Höttur enn stigalaus

Gunnar Gunnarsson skrifar
vísir/andri marinó
Keflavík átti ekki í teljandi vandræðum með nýliða Hattar í Domino‘s deild karla í körfuknattleik þegar liðin mættust á Egilsstöðum í kvöld. Þótt Höttur hafi lengst af verið inni í leiknum bættu gestirnir í hvert sinn sem heimamenn nálguðust.

 

Í raun skildi á milli liðanna seinni helming fyrsta leikhluta. Höttur byrjaði ágætlega með grimmri vörn en Keflvíkingar fundu fljótt glufur í henni. Fyrst var það Daði Lár Jónsson sem setti undir sig hausinn og keyrði í gegn en síðan fylgdu þriggja stiga körfurnar. Ágúst Orrason setti til dæmis niður þrjár slíkar.

Á sama tíma og Keflavík raðaði niður þriggja stiga skotum var allt botnfrosið í sóknarleik Hattar. Að sjö fyrstu vítaskotin hafi klúðrast segir sína sögu.

Þar með byggðist upp ríflega tíu stiga forusta sem var aldrei ógnað. Strax eftir fyrsta leikhluta var munurinn 14 stig, 11-25. Munurinn hélst fram í hálfleik, þegar að honum kom var Keflavík yfir 29-42.

Í hvert sinn sem Höttur virtist eygja von komu tvær körfur Keflavíkur í röð, helst utan þriggja stiga línunnar. Gott dæmi voru lokasekúndur þriðja leikhluta.

Þegar hálf mínúta var eftir var munurinn 13 stig og Höttur með byrinn í seglin. Keflavík svaraði strax með körfu og þótt aðeins þrjár sekúndur væru eftir tókst Hattarmönnum að glopra frá sér boltanum og fá önnur tvö stig í andlitið þannig munurinn var 17 stig.

Úrslitin voru í raun ráðin og munurinn bara jókst. Keflavík nýtti tækifærið vel til að dreifa spilatímanum milli leikmanna. Stanley Robinson, sem lék sinn fyrsta leik með Keflavík, fékk þægilegan leik til að spila sig í form. Hann spilaði 20 mínútur en varð stigahæstur gestanna með 15 stig og sýndi á köflum fína takta, til dæmis stal hann boltanum þrisvar sinnum.

 

Af hverju vann Keflavík?

Liðið var einfaldlega miklu betra á öllum sviðum. Forustan var þægileg frekar en stór og aldrei var neitt í leiknum sem benti til þess að hann gæti snúist Hetti í vil. Ef ein leið lokaðist þá var sú næsta opnuð, Keflvíkingar negldu niður þriggja skotum eða löbbuðu í gegnum Hattarvörnina ef ekki var hægt að skjóta fyrir utan.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Daði Lár Jónsson var sá sem upphaflega tók af skarið með að keyra upp hraðann og brjótast í gegn. Síðan fylgdu aðrir á eftir. Stanley var stigahæstur, átti góðan seinni hálfleik og var ákafur í varnarleiknum.

 

Hvað gekk illa?

Flest allt hjá Hetti. Leikmennirnir virtust ekki hafa trú á verkefninu, eftir því sem á leikinn leið jókst vonleysið. Að hafa ekki unnið enn er líka farið að leggjast á sál áhorfenda, þeir voru óvenju hljóðlátir í kvöld og fáir.

 

Hvað gerist næst?

Höttur á topplið Tindastóls í næstu viku en síðan er botnslagur við Þór Þorlákshöfn á Egilsstöðum. Liðið er í úrvalsdeildinni í þriðja sinn og hefur ekki enn unnið leik fyrir áramót. Því þyrfti að breyta til að forðast fallið.

Keflavík mætir KR og Njarðvík næst en liðin berjast um þriðja sætið í deildinni. Leikurinn í kvöld segir lítið um getu liðsins, til þess var fyrirstaðan of veik.

Daði Lár: Hefðum viljað klára leikinn fyrr

 

Daði Lár Jónsson átti góðan dag í liði Keflavíkur, skoraði 14 stig og tók flest fráköst, sjö talsins.

Höttur byrjaði á að spila þétta vörn en Daði var sá sem fann fyrstur leiðina í gegn þegar hann setti undir sig hausinn og brunaði að körfunni. Það átti hann eftir að gera oftar.

„Það var ekkert endilega planið, það var hægari maður að dekka mig og ég reyndi að nýta það. Við lögðum upp með að vera ákveðnari en þeir, það gekk samt ekki alveg upp því Höttur tók mikið af sóknarfráköstum í fyrri hálfleik,“ segir Daði Lár.

Þótt Keflavík væri með þægilega forustu, yfirleitt í kringum 13 stig, vildi liðið meira.

„Það vantaði að drepa leikinn. Þótt munurinn væri meira en tíu stig þá hefðum við viljað komast í 30 stig og klára leikinn fyrr. Þetta er ekki í fyrsta sinn.“

Friðrik Ingi: Langar ekkert meira en þessir strákar verði betri í körfubolta

 

Þótt Keflavík hafi haft þægileg tök á Hetti í kvöld tók Friðrik Ingi Rúnarsson tvö leikhlé þar sem vel heyrðist í honum og hann var ekki sáttur við spilamennsku síns liðs. Leikmenn hans svöruðu með góðum leik í kjölfar beggja hléanna.

„Það voru kaflar í leiknum sem ég var alls ekki ánægður með. Mér fannst við detta í kæru- og agaleysi og forgangsröðunin var ekki eins og ég vil hafa hana en þetta kemur,“ segir Friðrik.

„Mér þykir afar vænt um þessa drengi og mig langar ekkert meira en að þeir verði betri í körfubolta og sem persónur í lífinu. Til þess þarf maður stundum að láta í sér heyra og ég viti að mér þykir vænt um þá þótt ég skammist stundum í þeim. Ég var kannski fullæstur stundum en svo reyndi ég aðeins að hemja mig. Ég er hins vegar mjög ánægður með sigurinn.“

Stanley Robinson var stigahæstur Keflvíkinga með 15 stig í sínum fyrsta leik fyrir félagið en hann fékk leikheimild í gær á lokadegi félagaskipta.

„Hann á svolítið í land með að komast í form en miðað við það var ég mjög ánægður með spilamennsku hans. Það tekur einhverjar vikur en það er í góðu lagi. Ég held að hann reynist okkur dýrmætur þá. Hann er einn af hópnum, leggur sig fram og sýnir talsverðan vilja í varnarleiknum.“

Robinson spilaði aðeins 20 mínútur í leiknum, líkt og fleiri leikmenn Keflavíkur en Friðrik Ingi skipti spilatímanum nokkuð jafnt milli sinna manna.

„Við höfum gert það oftar í vetur. Við erum með jafnan hóp og góðan anda sem við reynum að nýta okkur. Þetta er gott meðan við getum unnt hver öðrum að einn sé heitur í dag og annar á morgun. Þegar varnarleikurinn kemur með í þetta þá getum við bara orðið betri.“

Viðar Örn: Þurfum að hætta þessu einstaklingsbulli

 

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var æfur eftir 66-92 ósigur liðsins gegn Keflavík í Domino‘s deild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í kvöld. Nýliðarnir gerðu sig aldrei líklega til að eiga möguleika í gestina.

 

„Það er gjörsamlega óþolandi þegar við förum út úr því sem við ætlum að gera og í eitthvert einstaklingsrugl. Það er sama hvað við æfum, tölum um að spila skipulegan leik og vinna eftir okkar reglum, menn finna alltaf leiðir til að fara að gera eitthvað sem einstaklingar. Þar skiptir engu hvort þeir byrja eða koma inn af bekknum og það er það sem skaðar okkur duglega.“

 

Liðið nær sem sagt ekki saman?

„Menn reyna ekki einu sinni. þeir ætla bara að fara að sigra heiminn. Þeir halda að þeir séu flottir með flotta hárgreiðslu og einhverjir svaka kóngar. Þannig virkar þetta ekki.

Ég kalla eftir því hjá mínum mönnum að vinna eftir því sem við vinnum með dags daglega en koma ekki í leiki og fara að hugsa um rassgatið á sjálfum sér. Það er gjörsamlega óþolandi.“

 

Hvað sagðirðu við liðið inni í klefa eftir leik?

„Þetta“

 

Hvernig brást það við?

„Ég vona að þetta kveiki aðeins í mönnum, að þeir hugsi sinn gang. Við munum spila leikmönnum sem geta farið eftir því sem við vinnum með. Þetta tengist ekki allt einhverjum hæfileikum í körfubolta. Þetta snýst um aga og skipulag og vilja vinna fyrir Hött Egilsstöðum, ekki bara hugsa um sjálfa sig og hvað þeir eru flottir – eða ekki flottir eins og hér í kvöld!“

 

Hvernig lögðuð þið leikinn upp?

„Við ætluðum að vera agaðir og skipulagðir, hreyfa boltann vel í sókninni, tengja þar saman möguleika og fara djúpt í skotklukkuna ef þess þyrfti. Oft hnoðuðum við loftið úr boltanum með drippli og förum síðan í einhverjar einstaklingsaðgerðir.

Þegar Keflavík kemst á flug erum við fljótir að missa einbeitinguna. Ef við gerum ein mistök ætlum við að bæta svo svakalega fyrir þau í stað þess að vera agaðir og vinna eftir því sem við ætlum að gera. Við erum snöggir að fara út úr skipulaginu og reyna að sigra heiminn. Ég er mest ósáttur við þessa „glory hutning“ takta sem ansi margir sýna.

 

Liðið er búið að tapa sjö deildarleikjum í röð, er það farið að leggjast á sálina?

„Það lítur þannig út meðan menn hitta ekki af vítalínunni og hika á skotum. Það kemur því hins vegar ekkert við að við spiluðum óagaðan leik og förum ekki eftir því sem lagt er upp með. Ef menn vilja vera einhvers staðar annars staðar og gera eitthvað annað er þeim það guðvelkomið. Við þurfum gæja sem eru tilbúnir að standa saman og vinna okkur upp úr holunni.“

 

Hvað næst, hvernig komist þið upp úr holunni?

„Með því að vinna áfram með þessi grunnatriði sem við höfum gert, lengja góðu kaflana og stytta þá slæmu. Við þurfum að hætta þessu einstaklingsbulli og sýna meira skipulag og aga. Ég veit að ef það kemur þá kemur sigurleikurinn. Við getum ekki leyft okkur að þykjast til helminga vera liðsspilarar og vera svo að hugsa bara um rassgatið á sjálfum okkur. Það er ekki boðlegt!“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira