Handbolti

Álagið varð Löwen að falli | Svona var kvöldið hjá handboltastrákunum okkar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alexander skilaði sínu en það dugði ekki til.
Alexander skilaði sínu en það dugði ekki til. vísir/getty
Bjarki Már Elísson skoraði eitt mark fyrir topplið þýsku úrvalsdeildarinnar, Füchse Berlin, í kvöld er liðið vann sannfærandi útisigur, 29-37, gegn Minden.

Kiel vann aldrei þessu vant leik í kvöld er Lemgo kom í heimsókn. Stórsigur, 29-19, hjá Kiel þar sem Nikola Bilyk og Marko Vujin skoruðu báðir sex mörk fyrir Kiel.

Það er búið að vera bilað álag á meisturum Rhein-Neckar Löwen og það kom í bakið á liðinu í kvöld er það tapaði, 29-26, gegn Melsungen. Alexander Petersson skoraði fimm mörk fyrir Löwen og Guðjón Valur Sigurðsson fjögur.

Flensburg valtaði yfir Hüttenberg, 38-23, þar sem Ragnar Jóhannsson skoraði tvö mörk úr sjö skotum fyrir Hüttenberg.

Rúnar Kárason skoraði eitt mark fyrir Hannover-Burgdorf er liðið skellti Stuttgart, 27-20.

Lið Aðalsteins Reynis Eyjólfssonar, Erlangen, tapaði með sex marka mun, 28-22, fyrir Magdeburg.

Füchse er á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar en Löwen er í öðru sæti. Kiel er aðeins í sjöunda sæti en Hannover er í fjórða. Erlangen er í sextánda sæti og Hüttenberg því sautjánda.

Í sænska boltanum unnu meistarar Kristianstad stórsigur, 39-29, á Skövde. Ólafur Guðmundsson skoraði sex mörk fyrir Kristianstad og Gunnar Steinn Jónsson eitt. Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað hjá meisturunum sem eru í toppsæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×