Fastir pennar

Óvinamissir

Þórlindur Kjartansson skrifar
Á ákveðnu tímabili í lífi mínu var ég mjög sannfærður um mikilvægi þess að eiga góða óvini. Þar með var ég alls ekki að gera lítið úr kostum vináttunnar. Eiginlega þvert á móti. Mér fannst að ef ég væri góður óvinur þá gerði það vináttu mína dýrmætari og sannari.

Mér gekk líka býsna vel að eignast óvini, enda þarf ekki mikið til. En þó kemur óvináttan ekki af sjálfu sér. Það er nefnilega eins með hatrið og ástina; maður þarf að leggja rækt við það til þess að það fölni ekki og gleymist.

Ólíkt vináttunni þá er ekki nauðsynlegt að óvinátta sé gagnkvæm. Hún getur verið einhliða og falin, meira að segja getur hún verið vafin í yfirborðskennd vingjarnlegheit þannig að hinn hataði óvinur er aldeilis grunlaus um heiftúðugt hugarþel í sinn garð. En því verður þó ekki neitað að það er meiri myndarbragur yfir óvináttu sem er opinber og gagnkvæm heldur en þeirri sem kraumar einmana og óséð í kvöldum og hefndarþyrstum hugarfylgsnum eins manns. Nei, það borgar sig ekki að festast of lengi í einhliða óvináttu og hatri því slíkt er eitrandi fyrir sál og sinnu og verður því ekki mælt með henni hér.

Erkióvinur

Æðsta takmark þeirra sem kunna að meta góðan óvinskap hlýtur að vera að eignast verðugan erkióvin. Sá sem á erkióvin í lífinu þarf ekki að kvíða verkefnaleysi eða leiðindum. Barátta við góða erkióvininn hrekur burt loftilla og dáðlausa lognmollu lífsins en fyllir tilveruna tilgangi og athafnaþrá.

Það var ein af gæfum lífs míns að eignast ungur alveg sérdeilis góðan erkióvin. Óvinurinn var mörgum góðum kostum búinn. Hann var fremur ógnvænlegur í fasi og klæðaburði, og léði það óvináttu minni ákveðinn hetjuljóma þar sem ég var sjálfur fremur veimiltítulegur að burðum og lítt ógnandi. Segja má að óvinátta okkar hafi blómstrað frá því við fyrst fréttum hvor af öðrum, því alltaf virtumst við vera að eltast við sömu hlutina og þvælast fyrir fyrirætlunum hvor annars.

Þetta var sönn óvinátta því ómengaður illvilji var á milli okkar, við gerðum hvor öðrum tjón við hvert tækifæri og falli spáðum.

Ekki nóg með það; vinahópar okkar sköruðust sáralítið þannig að það reyndist mjög auðvelt að espa upp ágæta stemmningu í kringum þessa óvináttu. Við gátum stöðugt gert okkur í hugarlund hvers konar bölvanlegt ráðabrugg væri í uppsiglingu af hálfu erkióvinarins og hans hyskis og búið okkur undir það með ennþá djöfullegri ráðagerðum til gagnsóknar.

Ég ræktaði þessa óvináttu um hríð af umtalsverðri natni og einlægni, en smám saman fór þó að halla undan fæti. Það er nefnilega ýmislegt ólíkt með hatrinu og ástinni. Ástin á það nefnilega til að dafna með nándinni, en fátt er eins hættulegt góðri óvináttu eins og að kynnast óvini sínum.

Þess vegna er sú grunnregla óvináttunnar þyngdar sinnar virði í brennisteini að eiga helst aldrei neitt saman að sælda með óvini sínum og vinum hans. Ef maður vill ekki stefna óvináttunni í voða þá þarf að ríkja algjör og einbeittur aðskilnaður. Það má aldrei leyfa sér þann grun að nokkur minnsti vottur af sæmilegum mannkostum fyrirfinnist í erkióvini.

Þetta vita allir sem starfað hafa í stjórnmálum þar sem illdeilur, einkum innan flokka, leiða oft til ævintýralegrar vænisýki þar sem það eitt að deila kaffibolla með einhverjum úr „öðru liði“ getur leitt til meiriháttar afleiðinga og jafnvel útskúfunar. Það flækir nefnilega tilveruna umtalsvert ef maður tapar fullvissunni um ómennska illsku og heimsku andstæðingsins.

„Rosalega fínn gaur“

Það var þess vegna mikið áfall þegar ég varð vitni að því að einn besti vinur minn átti í kumpánlegu spjalli við erkióvin minn. Þessi sami vinur minn var tekinn til bæna við fyrsta tækifæri og rukkaður um skýringar á þessu fáránlega frumhlaupi. „Heyrðu, mér finnst hann bara alveg rosalega fínn gaur,“ var þá svarið. Þetta var einmitt það sem ég vildi ekki heyra. Eftir á að hyggja var þetta líklega upphafið að endinum á þessari fyrirtaksgóðu óvináttu.

Stuttu síðar komst ég ekki sjálfur hjá því að kynnast erkióvini mínum. Og viti menn—það kom í ljós að þetta var alveg rosalega fínn gaur, eins og mér hafði verið sagt. Með okkur tókst fljótlega vinátta og fyrr en varir vorum við farnir að eignast nýja óvini í sameiningu, eins og ekkert hefði í skorist. Og til að bæta gráu ofan á svart urðu meira og minna allir vinir okkar að vinum líka. Þvílík endemis sóun á því sem hefði getað verið ævilangur fjandskapur.

Og auðvitað hefði ekkert af þessu þurft að gerast. Ef við hefðum bara passað betur að kynnast aldrei mannkostum hvor annars, hugsunum og heimsmynd; heldur bara hangið hvor í sínu horni með okkar bjöguðu hugmyndir um innræti og skapgerð hins—þá værum við kannski ennþá óvinir í dag.

Þeim sem er annt um hatrið er því hollast að forðast þessi mistök, ellegar eiga á hættu að glata óvináttunni en eignast óvænta og óumbeðna vináttu í staðinn.






×