Körfubolti

Borche: Ekkert jákvætt í þessum leik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Borche Ilievski, þjálfari ÍR.
Borche Ilievski, þjálfari ÍR. Vísir/Ernir
Borche Ilievski, þjálfari ÍR-inga, var ekki sáttur með sína menn í kvöld, en liðið tapaði á heimavelli fyrir Val, 76-90, í Domino’s deild karla.

„Ég varaði liðið mitt við því alla vikuna að Valur er mjög agað lið. Þeir eru skipulagðir, líkamlega sterkir og færir í körfubolta,“ sagði Borche eftir leikinn.

„Við opnuðum leikinn vel, en við héldum okkur ekki við okkar leikáætlun. Sóknarskipulagið var ekki að virka, við vorum stressaðir og við leyfðum þeim að skora 50 stig í fyrri hálfleik.“

ÍR-ingar skoruðu fyrstu sex stig leiksins, en töpuðu fyrsta leikhluta 15-32 og voru 33-54 undir í hálfleik.

„Liðið sem neyðist til að spila í vörn getur ekki fengið á sig 50 stig í fyrri hálfleik. Sumir leikmenn okkar voru ekki að fylgja skipulaginu og við vorum stressaðir.“

„Við þurfum að spila vörn í 40 mínútur.“

Valsmenn spiluðu varnarleikinn mjög vel í kvöld og áttu ÍR-ingar fá svör og gekk illa að skora.

„Við tókum slæmar ákvarðanir og vorum að láta ákvarðanir dómaranna trufla okkur.“

„Við þurfum að fara yfir leikinn og greina hann og læra af mistökum okkar.“

En hvað getur Borche tekið jákvætt út úr leiknum?

„Ég get ekkert jákvætt tekið úr leiknum. Við stóðum okkur ekki, hvorki sóknarlega né varnarlega,“ sagði Borche Ilievski.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×