Körfubolti

Ívar um fjarveruna síðustu daga: Ef eitthvað er þá er liðið betra

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ívar messar yfir sínum mönnum í kvöld.
Ívar messar yfir sínum mönnum í kvöld. vísir/ernir
„Mér fannst frammistaðan heilt yfir ágæt. Mér fannst við samt alveg geta meira, sérstaklega í fyrri hálfleik,” sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka í kvöld, eftir frábæran sigur á KR.

„Það vantaði aðeins kraft í okkur, en við vorum að hitta vel og það var það sem skóp forystuna í fyrri hálfleik. Mér fannst vanta kraft, en krafturinn í þriðja og fjórða var frábær.”

Í fyrri hálfleik voru Haukarnir dálítið að rétta KR boltann í stað þess að stinga KR-inga almennilega af.

„Okkur vantaði aðeins að klára leikinn vel. Við urðum kærulausir stundum og vorum ekki að gera það sem gekk vel. Um leið og við náðum forystu þá vorum við of seinir að setja upp.”

„Heilt yfir er þetta bara flottur sigur og algjör liðssigur þar sem allir eru að skila frábærri vinnu. Við erum að fá stórkostlegt framlag frá bekknum.”

Það eru ekki mörg lið sem koma í DHL-höllina og halda KR í 66 stigum eins og Haukarnir gerðu í kvöld. Varnarleikurinn var frábær.

„Varnarleikurinn var frábær og stóru mennirnir okkar í teignum voru stórkostlegir. Þeir stoppuðu allt. Ég held ég hafi ekki séð annað eins og varnarleikinn hjá Hjálmari. Hann var rosalegur.”

Ívar hefur verið erlendis með kvennalandsliðinu og kann aðstoðarmönnum sínum miklar þakkir fyrir frammistöðu þeirra síðustu daga og vikur, en Vilhjálmur Steinarsson og Steinar Aronsson eru aðstoðarmenn Ívars.

„Ég vil hrósa aðstoðarmönnum mínum meðan ég var úti. Þeir hafa verið að sinna þessu, Vilhjálmur og Steinar, og hafa gert það frábærlega. Ef eitthvað er þá er liðið betra. Ég vil koma hrósi á þá tvo,” sagði Ívar þakklátur sínum mönnum í leikslok.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×