Viðskipti innlent

Meta tilboð í ferðaþjónustuþorpið Laugar í Sælingsdal

Haraldur Guðmundsson skrifar
Laugar í Sælingsdal fóru í sölu í september 2016.
Laugar í Sælingsdal fóru í sölu í september 2016. Vísir/gar
Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur borist tilboð í ferðaþjónustuþorpið Laugar í Sælingsdal. Tilboðsgjafinn hefur óskað eftir trúnaði en sveitarstjórinn segir kauptilboðið vel undir 530 milljóna króna verðmiða sveitarfélagsins.

Sveitarstjórnin hefur óskað eftir fresti til næsta þriðjudags til að svara. Um er að ræða tilboð í jörðina, jarðhitaréttindi, tjaldsvæði, 20 herbergja hótel og aðrar fasteignir, þar á meðal heimavist með 26 herbergjum, íþróttamiðstöð og 25 metra langa sundlaug, á svæðinu eða alls um fimm þúsund fermetra.

„Þetta er innlendur aðili sem er með ósköp heilbrigð áform um hótel­rekstur. Í grunninn er þetta gamall grunnskóli og fyrir 17 árum var elsti hluti hans tekinn í gegn og breytt í hótel. Þetta er dásemdarstaður og ég heyri ekki betur en að áformin séu mjög jákvæð og hann hyggst fjölga hótelherbergjum,“ segir Sveinn Pálsson, sveitarstjóri Dalabyggðar.

Dalabyggð auglýsti Laugar í Sælingsdal til sölu í september í fyrra. Sveitarfélagið keypti fasteignirnar af ríkinu árið 2013 og er ásett verð nú 530 milljónir króna. Á Laug­um var áður rek­inn grunn­skóli með heima­vist en á seinni árum hef­ur þar verið rekið sum­ar­hót­el á veg­um Hót­els Eddu, dótturfélags Icelandair-hótela, og skóla­búðir Ung­menna­fé­lags Íslands fyr­ir börn í 9. bekk grunn­skóla að vetr­in­um. Þá er þar einnig að finna byggðasafn Dalamanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×