Fótbolti

Hörður Björgvin: Buffon var aldrei með neinn hroka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður Björgvin segir að árangur Íslands hafi ekki komið leikmönnum liðsins á óvart.
Hörður Björgvin segir að árangur Íslands hafi ekki komið leikmönnum liðsins á óvart. vísir/eyþór
Hörður Björgvin Magnússon segir að það hafi ekki komið neinum í íslenska landsliðinu á óvart að þeir séu komnir á HM í Rússlandi.

„Þetta kom okkur eiginlega ekki á óvart. Þetta var alltaf markmiðið, að komast á stórmót. Það gaf okkur auka hvatningu að liðum á EM í Frakklandi var fjölgað í 24. Það var draumur fyrir Íslendinga að sjá liðið sitt þar. Við skinum skært á EM og börðumst svo um sæti á HM 2018, vitandi að það væri möguleiki, að við gætum gert það,“ sagði Hörður í samtali við Goal.

Hann segir að liðsheildin sé helsti styrkleiki íslenska liðsins.

„Við erum ekki með Neymar eða Coutinho, bara leikmenn sem vinna saman. Þessi liðsandi gerði okkur kleift að vinna England á EM og mun fleyta okkur enn lengra,“ sagði Hörður.

Gianluigi Buffon hefur leikið með Juventus síðan 2001.Vísir/Getty
Hann fór ungur að árum til ítalska stórveldisins Juventus frá Fram.

„Ég var miðjumaður þegar ég byrjaði að spila heima. Þegar ég fór til Juventus sögðu þjálfararnir þar að ég yrði jafn góður varnarmaður. Svo ég færði mig aftar á völlinn,“ sagði Hörður sem æfði með mörgum frábærum leikmönnum hjá Juventus.

„Ég var að verjast [Alessandro] Del Piero! Þú lærir mikið á því. Ég horfði mikið á [Andrea] Pirlo og aukaspyrnurnar sem hann tók. Hann var með sérstakan stíl. Þegar ég var ungur reyndi ég að líkja eftir stílnum hans og Cristianos Ronaldo. En þegar ég byrjaði að spila með Pirlo þróaði ég með mér sömu tækni og hann.“

Hörður hrósar markverðinum Gianluigi Buffon og segir hann fínan náunga.

„Það er auðvelt að líka vel við Buffon. Hann er mjög auðmjúkur og aldrei með neinn hroka. Hann hikaði aldrei við að gefa þér ráð og hugsaði alltaf um liðið,“ sagði Hörður.


Tengdar fréttir

Ein önnur Evrópuþjóð í okkar riðli

Nú er endanlega ljóst hvaða 31 þjóð mun taka þátt í HM í Rússlandi með okkur Íslendingum næsta sumar. Áhugasamir geta dundað sér við að setja saman draumariðlana sína fram að drættinum sem verður 1. desember.

Íslenska vörnin hefur aldrei verið betri

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hefur aldrei verið með betri markatölu og aldrei fengið á sig færri mörk í leik en á árinu 2017 en sofandaháttur í Katar á þriðjudaginn kom í veg fyrir að liðið tæki tvö önnur met til viðbót




Fleiri fréttir

Sjá meira


×