Erlent

Sigurjón: „Þeir eiga ekki séns í bransanum lengur“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Harvey Weinstein og Kevin Spacey hafa verið sakaður um kynferðislega áreitni og/eða ofbeldi.
Harvey Weinstein og Kevin Spacey hafa verið sakaður um kynferðislega áreitni og/eða ofbeldi. Vísir/Getty

Kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson segir að Kevin Spacey og Harvey Weinstein eigi ekki afturkvæmt í Hollywood eftir þær ásakanir sem settar hafa verið fram á hendur þeim. Tugir karla og kvenna hafa stigið fram og greint frá kynferðislegri áreitni eða ofbeldi af þeirra hálfu.

Sigurjón ræddi við Freyr Gígja Gunnarsson, fréttamann RÚV, fyrir Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun. Sigurjón og Spacey þekkjast ágætlega og reyndu um nokkra ára skeið að finna verkefni sem þeir gætu unnið saman að. Um tíma leit út fyrir að þeir myndu vinna saman að endurgerð norska smellsins Elling sem Sigurjón keypti réttin að. Samningar náðust á milli þeirra um að Spacey myndi taka að sér aðalhlutverkið en ekkert varð þó af samstarfinu.

Tugir einstaklinga hafa greint frá kynferðislegu áreitni eða ofbeldi af hálfu Spacey. Leikarinn Anthony Rapp sakaði Kevin um að hafa haft kynferðislega tilburði við sig þegar hann var fjórtán ára gamall. Í kjölfarið stigu fleiri fram og sökuðu Kevin Spacey um kynferðislega tilburði og ofbeldi. Í framhaldi af því var leikarinn rekinn úr þáttunum House of Cards. Sagði Sigurhón að áður en þessar ásakanir hafi komið fram hafi orðspor Spacey í Hollywood farið dvínandi en leikarinn þótti oft á tíðum erfiður í samstarfi.

Sigurjón Sighvatsson hefur starfað í Hollywood um árabil.Vísir/Vilhelm

„Hann var ekki vel liðinn. Ég þekki fullt af fólki sem hefur unnið á House of Cards og ég myndi segja að hans orðspor í heild sem persónu var nú farið að skaðast ansi mikið,“ sagði Sigurjón í samtali við RÚV.

Margt fleira sem eigi eftir að koma upp á yfirborðið

Þá hafa fjölmargar konur hafa einnig stigið fram, þar á meðal leikkonurnar Angelina Jolie, Gwyneth Paltrow og Rose McGowan, og sakað bandaríska kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um að hafa ýmist áreitt sig kynferðislega eða nauðgað sér. Weinstein var einn valdamesti kvikmyndaframleiðandinn í Hollywood.



Sigurjón, sem þekkir vel til í Hollywood eftir að hafa starfað og búið þar um árabil, sagði ljóst að þessir tveir muni ekki snúa aftur í Hollywood. Ferill þeirra sé búinn.



„Það er alltaf sagt hér í Hollywood að það geta allir gert „comeback“. Mel Gibson er nýjasta „comeback-ið“ en ég held að þær ásakanir gegn þessum mönnum eru það alvarlegar að þeir eiga ekki séns í bransanum lengur,“ segir Sigurjón. Það sé þó lán í óláni að þessar ásakanir hafi hrundið af stað vitundarvakningu um að sú hegðun sem menn eins og Spacey og Weinstein hafi sýnt af sér sé óásættanleg.



„Ég held að það sé í rauninni lán í óláninu að fólk gerir sér grein því að ef það stígur yfir strikið þá er ekkert aftur snúið. Það er kannski það sem er jákvæðast og sterkast við þetta er það að þetta mun hafa áhrif. Fólk mun hugsa sig tvisvar um. Það eru afleiðingar,“ sagði Sigurjón.



Hann bætti þó við að líklega séu ásakanirnar á hendur Spacey, Weinstein og öllum hinum bara dropi í hafið, fleiri ásakanir á hendur fleiri mönnum muni líta dagsins ljós, það sé einungis tímaspursmál.



„Ég held að það sé alveg klárt mál að það vita allir að það á margt fleira eftir að koma upp á yfirborðið,“ sagði Sigurjón í samtali við RÚV sem hlusta má á hér.


Tengdar fréttir

Ridley Scott lætur Kevin Spacey fjúka

Breski kvikmyndaleikstjórinn Ridley Scott ætlar að skipta bandaríska leikaranum Kevin Spacey út fyrir annan leikara í nýjustu kvikmynd sinni, All the Money in the World, en aðeins er rúmur mánuður í að myndin verði frumsýnd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×