Erlent

Tuttugu tonn af kjötbollum lokuðu sænskum vegi

Kjartan Kjartansson skrifar
Kjötbollurnar líta ef til vill sakleysislega út en margar saman geta þær lokað heilu vegunum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Kjötbollurnar líta ef til vill sakleysislega út en margar saman geta þær lokað heilu vegunum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir
Ísing olli því að tengivagn flutningabíls sem var fullur af kjötbollum rann út af veginum og endaði ofan í skurði í suðvesturhluta Svíþjóðar á miðvikudagskvöld. Afferma þurfti tengivagninn áður en hægt var að draga hann upp úr skurðinum og lokuðu tuttugu tonn af kjötbollum veginum á meðan.

Óhappið átti sér stað á veginum á milli Skara og Lundsbrunn. Engan sakaði í slysinu og fóru sænskir gárungar mikinn um fréttirnar á samfélagsmiðlum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Þannig sögðust Twitter-notendur tilbúnir að hjálpa til við hreinsunarstarfið með hníf og gaffli. Aðrir stungu upp á að flutningabíll fullur af spaghettíi gæti fylgt í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×