Innlent

Var nauðgað af ókunnugum manni í Barcelona: „Ég hélt að hann myndi drepa mig“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Líf Kristínar Þóru Sigurðardóttir snerist á hvolf eftir að henni var nauðgað þegar hún var í spænskunámi í Barcelona.
Líf Kristínar Þóru Sigurðardóttir snerist á hvolf eftir að henni var nauðgað þegar hún var í spænskunámi í Barcelona. Vísir/Anton Brink
Líf Kristínar Þóru Sigurðardóttir snerist á hvolf eftir að henni var nauðgað þegar hún var í spænskunámi í Barcelona. Kristín Þóra var þá 19 ára gömul og hafði aðeins verið í borginni í rúma þrjá sólarhringa þegar hún varð fyrir árásinni. Í dag sér hún eftir því að hafa ekki kært strax og ráðleggur öðrum að gera ekki sömu mistök.

„Ég flyt út þann 1. október árið 2012 og var þá nýorðin 19 ára. Mig langaði að gera eitthvað skemmtilegt og varð spænskunám fyrir valinu. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað ég var að fara út í, en var sett í íbúð með tveimur sænskum stelpum í sama námi.“

Stelpurnar urðu góðar vinkonur og eru enn nánar í dag. En þær höfðu aðeins þekkst í þrjá daga þegar þær fóru út að skemmta sér saman þetta örlagaríka kvöld.

„Ég fór út á mánudegi og þetta gerðist á fimmtudegi. Ég bjó í Svíþjóð þegar ég var lítil og hef alveg ferðast en aldrei verið einhvers staðar ein eins og þarna,“ útskýrir Kristín Þóra.

„Við fórum á fimmtudagskvöldinu á írskan bar og hittum þar fjóra hollenska stráka. Þessi spænski maður var alltaf með okkur og ég gerði ráð fyrir að hann væri með þeim, þó að hann virkaði samt töluvert eldri.“

Hélt að þær hefðu farið

Kristín Þóra segir að það sé erfitt að átta sig á aldri mannsins, hann hafi sennilega verið á milli þrítugs og fertugs.

„Við vorum níu saman á írska barnum og fórum svo yfir á skemmtistaðinn Jamboree. Við höfðum verið að drekka um kvöldið svo við vorum í glasi en samt ekkert ráfandi um neitt. Það var ótrúlega gaman og þegar við höfðum verið þar í tvo eða þrjá tíma þá fóru stelpurnar út að reykja. Ég hafði alltaf farið með þeim upp og út til þess að reykja þó að ég reykti ekki en við vorum að dansa og skemmtilegt lag í gangi svo ég ákvað að vera eftir með strákunum.“

Hún segist ekki hafa átt samtal við spænska manninn á þessum tímapunkti en hafði þó séð hann tala við eina af meðleigjendum sínum, hún nefnir að enskukunnátta hans hafi verið léleg.

„Ég fór alltaf með þeim nema í þetta eina skipti. Svo eru þær svo lengi að ég ákvað að fara að leita að þeim. Þegar ég var að labba að stiganum þá mæti ég þessum manni og spyr hann hvort hann hafi séð stelpurnar sem ég væri með. Hann sagði mér þá að þær hefðu farið, að hann hefði séð þær fara í leigubíl. Hann sagði að vinkona mín hafi orðið veik og að þær hefðu beðið hann að passa upp á mig.“

Kristín Þóra segist hafa hugsað í augnablik um að þær hefðu nú ekki skilið hana eftir, en svo áttaði hún sig á því að þær hefðu aðeins þekkst í nokkra daga svo hún vissi nú lítið um þær, kannski hefði önnur þeirra drukkið of mikið og þurft að fara.

„Ég fór svo með honum upp á efri hæðina og hann kaupir fyrir mig bjór. Ég kláraði kannski helminginn en þá vildi ég fara heim, ég sá hvergi hina strákana og vildi því bara fara. Hann bauðst til þess að fylgja mér að neðanjarðarlestinni minni.“

Hún tók þessu sem góðmennsku og þáði þetta, enda ný í þessari borg og ekki búin að læra almennilega á lestarkerfið.

Kristín Þóra á flugvellinum áður en hún lagði af stað til BarcelonaKristín Þóra
Hélt að hann væri að hjálpa

„Hann ætlaði að fylgja mér þangað svo ég gæti tekið lestina heim, eða það hélt ég. Það var stutt í metro stoppið en kerfið þar niðri er flókið þar sem það eru margar leiðir í boði. Hann spyr hvar ég eigi heima og segir mér svo hvaða lest ég eigi að fara í og ætlar að fylgja mér. Hann borgar fyrir mig en hoppar svo sjálfur yfir hliðið.“

Lestin kom og fór maðurinn þá með Kristínu Þóru inn í lestina. Þá byrjaði henni að líða frekar óþægilega yfir nærveru hans.

„Ég veit ekki hvort það var stress eða þá að eitthvað var sett í glasið mitt en mig byrjaði að svima. Mér leið illa og átti erfitt með að standa í lappirnar. Við settumst þá niður og ég man að eldri kona og maður sátu á móti mér. Spænski maðurinn byrjar að knúsa mig og koma við mig og setur svo höndina mína inn á sig. Þá varð ég hrædd en þorði ekki að hreyfa mig og ég var ótrúlega hæg og sljó.“

Kristín Þóra segir að hún sé í dag hissa á því að konan sem horfði beint í augun á henni hafi ekki athugað með hana eða reynt að ræða við hana.

„Við vorum miklu lengur í lestinni en ég átti að vera, en ég áttaði mig ekki á því fyrr en eftir á. Svo förum við út og hann heldur í höndina á mér og ég man að ég átti erfitt með að beina því hvert ég var að labba, þá krækir hann hönd sinni um mína og hálf dregur mig. Þarna hélt ég enn að hann væri að hjálpa mér heim.“

Ógeðslega vond lykt

Þegar þau voru komin upp stigann á lestarstöðinni og út þá áttaði Kristín Þóra sig á því að hún kannaðist ekkert við sig. Hún vissi ekki hvar hún var. Enginn var þar á ferli og þegar Kristín Þóra spurði hvar hún væri eða hvert hún væri að fara fékk hún engin svör frá manninum sem hún hélt að væri að fylgja sér heim.

„Ég reyndi að stoppa en þá tosaði hann mig bara fastar. Svo stoppa ég og sagði nei. Aftur og aftur „No, no, no, no I‘m going home.“ Þá slær hann mig utan undir, alveg frekar fast. Ég hef aldrei verið jafn niðurlægð og mér brá svo mikið. Það fyrsta sem mér datt í hug var að hlaupa en þá tekur hann í jakkann minn og ýtir mér þannig dett út af göngustígnum og renn niður brekku.“

Kristín Þóra lýsir umhverfinu fyrir neðan brekkuna þannig að þetta hafi sennilega eitt sinn verið á eða tjörn, sem nú væri uppþornuð. Það var brú yfir en ekkert vatn. Enginn var þarna á ferli nema þau tvö.

„Þetta var bara mold og gras og drulla, mikið af rusli þarna og ógeðslega vond lykt.“

Þegar hún reyndi að standa upp var maðurinn kominn niður til hennar.

„Þá varð ég virkilega hrædd. Það var enginn annar þarna, þegar ég fór í lestina var klukkan að verða þrjú, ég veit ekki hvað hún var orðin þarna. Ég sný mér við og reyni að standa upp og fór upp á fjórar fætur en hann ýtti mér niður aftur. Hann tosar í hárið á mér og heldur mér á meðan hann ýtir andlitinu á mér í jörðina. Hendur mínar voru lausar svo ég reyndi að klóra hann og berjast. Þá rífur hann jakkann af mér og setur hann utan um hálsinn á mér. Ég lá þar föst á maganum. Þetta var ekki að kæfa mig en ég fraus gjörsamlega og hugsaði að ég þyrfti bara að reyna að vera kyrr.“

Á þessum tímapunkti hafði Kristín Þóra gert sér grein fyrir því að maðurinn hafði blekkt hana, farið með hana í ranga lest og hún væri hugsanlega hvergi nærri heimili sínu.

Starði á krumma

„Ég hélt að hann myndi drepa mig. Ég man að ég hugsaði að ef ég hreyfði mig þá myndi hann herða takið um hálsinn á mér. Þá klæddi hann mig úr að neðan, niður að hné. Svo nauðgar hann mér. Þetta var ógeðslega vont en ef ég hreyfði mig ekki þá meiddi hann mig ekki eins mikið, ég hætti því að streitast á móti.“

Kristín Þóra hætti þá að tala, gráta og öskra, lá bara alveg grafkyrr með andlitið í moldinni.

„Ég var hrædd um það hvað hann myndi gera ef ég myndi halda áfram að snökta. Ég var að reyna að finna leið til að komast undan en var svo hrædd um að ef ég gerði hljóð þá yrði hann hræddur um að einhver heyrði og myndi drepa mig. Alltaf þegar ég reyndi að streitast á móti þá meiddi hann mig meira.“

Á einhverjum tímapunkti byrjaði Kristín Þóra að streitast aftur á móti vegna sársauka og þá setti maðurinn olnbogann á milli herðablaðanna á henni og hélt henni þannig niðri.

„Þetta var algjört ruslasvæði. Ég sá nokkra krumma vera að fljúga þarna og kroppa í eitthvað ógeð sem var þarna og náði einhvern vegin einbeita mér bara að þeim. Þá náði ég að halda mér rólegri. Það var ekkert sem ég gat gert. Ég hefði ekki ráðið við hann. Þessi maður hafði algjört vald yfir mér. Ég geri mér engan veginn fyrir því hvað þetta var langur tími. Mér finnst eins og þetta hafi verið nokkrir klukkutímar en ég veit að það var ekki þannig.“

Maðurinn fer af Kristínu Þóru og gengur nokkur skref frá henni og þá flýtir hún sér að klæða sig í.

„Hann kemur til baka og hjálpar mér á fætur og styður við mig upp brekkuna. Hann glotti og brosti eins og ekkert væri að. Hann hélt í mig og reynir að labba áfram en ég fylgi ekki á eftir. Þá herðir hann bara takið á mér og neglurnar hans stingast inn í mig. Ég hélt á leðurjakkanum mínum og hann var allur rifinn að innan.“

Kristín Þóra segir að maðurinn hafi ekki virst vera drukkinn, hefur hún hugsað um það síðan að kannski hafi þetta alltaf verið ætlunarverkið hans, alveg frá því í byrjun kvöldsins. Hún áttar sig á því að þau séu sennilega í hans hverfi því hann segir við hana að þau séu á leið heim til hans. Sennilega hefði hann farið með hana þangað ef hún hefði ekki neitað og dottið niður brekkuna.

Skömmin var mikil

„Hann labbar með mig aðeins áfram en þegar við komum fyrir hornið sé ég blá ljós og lögreglufólk. Það voru einhverjir ungir strákar þarna og brotin rúða í einhverri sjoppu.“

Einn lögreglumaður gefur sig á tal við spænska manninn á meðan Kristín Þóra stendur stjörf, hann herðir takið á hönd hennar eins og til að segja henni að þegja. Lögreglumaðurinn reynir að tala við Kristínu Þóru á spænsku en hún sagðist ekki skilja.

„Þá var ég komin með kökk í hálsinn og byrja að tárast. Þá var eins og hann hafi raunverulega séð mig. Hann lítur á mig alla og horfir upp á niður. Hann fer svo og kemur aftur með tvo aðra lögregluþjóna, konu og mann.“

Kristín Þóra segir að hún hafi verið öll útötuð í mold, grátbólgin og með rispur á andlitinu. Lögreglukonan tók hana til hliðar og settist með henni á bekk. Kristín Þóra segir konunni að maðurinn hafi slegið sig og hrint sér, en segir ekki að sér hafi verið nauðgað.

„Ég skammaðist mín svo ótrúlega mikið fyrir að hafa treyst honum. Mér fannst ég svo barnaleg. Ég held að hún hafi samt alveg áttað sig á því hvað hafi gerst.“ Hún veit ekki hvort maðurinn hafi verið handtekinn eða hafi einfaldlega stungið af, eftir að hún talaði við lögreglukonuna var maðurinn horfinn og einn lögreglumaður og einn lögreglubíll ekki lengur á vettvangi.

„Ég fór með lögreglukonunni inn í bíl og lögregluþjónarnir tveir komu með mér. Þau segja mér að ég þurfi að koma upp á stöð og svo upp á sjúkrahús en ég þvertók fyrir það. Ég neitaði, grét og hálfpartinn öskraði á þau að ég vildi fara heim. Ég skammaðist mín og var hrædd, ég vildi því bara komast í öryggi. Ég þekkti ekkert þarna, síminn minn var straumlaus og ég vildi bara fara heim.“

Kristín Þóra með sænsku stúlkunum sem hún bjó með í Barcelona. Þær eru enn mjög nánar vinkonur í dag.Kristín Þóra
Gat ekki litið í spegil

Lögregluþjónarnir keyra Kristínu Þóru í íbúðina og tók bílferðin meira en hálftíma, hún hafði því verið langt frá heimilinu og hafði augljóslega verið sett vísvitandi í ranga lest. Þegar hún kemur heim komu stelpurnar hlaupandi á móti henni þegar hún fer inn um dyrnar.

„Hún segir mér að þær hefðu verið búnar að leita að mér, þær voru allar hræddar um mig. Þær sáu hvernig ég leit út og fóru báðar að gráta. Þær báðu mig afsökunar. Ég var í smá stund reið út í þær fyrir að hafa skilið mig eftir.“

Það var þá sem Kristín Þóra fékk að vita að allt sem maðurinn hafði sagt við hana var lygi. Hann lokkaði hana út af skemmtistaðnum, frá vinkonum sínum, með því að blekkja hana. Stúlkurnar höfðu farið út að reykja og svo á baðherbergið en þær fóru ekki í leigubíl, þær fóru ekki heim á undan Kristínu Þóru og voru enn inni á staðnum þegar Kristín Þóra fór með manninum í lestina.

„Ég sagði ekkert, vildi bara fara að sofa. Ég heyrði þær svo hringja í einhvern og segja á ensku að ég væri fundin. Þær voru að láta hollensku strákana vita því þau höfðu öll verið að leita af mér. Þau voru mjög hrædd. Ég fór úr fötunum og fór upp í rúm en ég gat ekki losnað við lyktina. Lyktin var svona moldarrusllykt og mér fannst hún vera alls staðar.“

Kristín Þóra setti fötin sín ofan í tösku en það dugði ekki til svo hún ákvað að fara í sturtu. Þar sér hún í speglinum að hún er með ummerki og áverka á andlitinu, olnbogunum, ökkla, lærunum, bakinu og á fleiri stöðum. Hún var aum alls staðar.

„Ég var öll út í mold. Eftir sturtuna gat ég ekki horft á mig í spegli. Ég skammast mín niður í tær. Ég fer inn í herbergi og þá var klukkan sennilega svona sex eða hálf sjö.“

Barnalegt að treysta honum

Næsta dag fóru stelpurnar í skólann en hún ákvað að vera heima. „Ég ákvað strax að segja engum frá þessu. Ég hélt að enginn gæti skilið þetta. Áður hafði ég aldrei skilið hvernig þolendur gátu kennt sér um, þrátt fyrir að þetta væri augljóslega ekki þeim að kenna. En þarna skildi ég það, mér fannst þetta vera mér að kenna. Ég gerði allt vitlaust. Ég skammaðist mín ekki beint fyrir það sem gerðist heldur fyrir að hafa leyft þessu að gerast, að hafa verið svona barnaleg og óþroskuð að hafa treyst einhverjum.“

Vinkona hennar á Íslandi hringdi í hana á Skype og sér strax að eitthvað er að. Kristín Þóra segir henni allt sem hafi komið fyrir hana nóttina áður.

„Þetta var örugglega besta ákvörðun sem ég hef tekið, þó að ég hafi ekki ætlað að taka hana.“

Í kjölfarið fer hún í skólann þar sem hún var í spænskunámi og lætur þar vita að sér hafi verið nauðgað og bað um aðstoð. Þaðan var Kristín Þóra send í leigubíl á kvennadeild þar sem hún var skoðuð, tekin voru sýni og blóðprufur ásamt því að gert var að sárum hennar

„Þau spyrja mig hvort ég vildi kæra og ég sagði nei. Það eina sem ég hugsaði um var að ég vildi ekki sjá hann aftur. Lögreglan talaði líka um það við mig á bekknum um nóttina að það væri erfitt að kæra svona mál. Mér fannst hún vera að draga úr mér en samt vildi hún að ég kæmi niður á stöð, mér fannst eins og hún væri að senda mér misvísandi skilaboð.“

Kristín Þóra ásamt Kjartani besta vini sínum og einum kennaranum þeirra í spænskuskólanum.Kristín Þóra
Sálin var brotin

Kristín Þóra vissi ekki nafnið á manninum eða neitt annað um hann og sá hann aldrei aftur. Hún lagði ekki fram kæru og vildi bara fara heim til Íslands. Eftir að hafa rætt málið við foreldra sína tók hún ákvörðun um að vera áfram úti í Barcelona og klára spænskunámið sem tók nokkrar vikur.

„Ég vildi ekki leyfa honum að skemma allt fyrir mér, allt sem ég var búin að hlakka til í marga marga mánuði.“

Hún kynntist íslenskum strák í náminu og eyddi miklum tíma með honum og hans fjölskyldu. Hún þorði þó aldrei að vera ein, sérstaklega ekki á kvöldin. Þetta var erfiður tími en hún vann þó ekkert úr árásinni og þegar hún kom heim komu þessar tilfinningar aftur upp á yfirborðið.

„Ég hafði bara ýtt á „hold“ og það var mjög erfitt að koma heim og hitta alla aftur. Ég vissi að ég ætti ekki að skammast mín fyrir þetta en ég gerði það. Ég byrjaði ekkert að vinna úr þessu. Sálin mín var brotin í tvennt og í langan tíma var ég ekki sama manneskjan og ég var áður en þetta gerðist. Ég var alltaf að leita að athygli, ég hélt að ef ég myndi finna einhvern sem myndi sjá mig öðruvísi en ég sá sjálfa mig þá myndi ég kannski ná að fylla upp í þetta tómarúm. Ég hafði misst alla sjálfsvirðingu og sjálfstraust og fannst ég þurfa athygli til að líða vel. Í eitt ár var ég frekar mikið stjórnlaus.“

Eftir að hafa brotnað niður eitt skiptið sendi Kristín Þóra skilaboð á Stígamót. Hún fékk strax símtal og þá byrjaði hún að vinna úr þessu máli, með þeirra aðstoð. „Fjölskyldan mín stóð líka mjög þétt við bakið á mér, við erum mjög náin.“

Kristín Þóra hvetur alla sem verða fyrir kynferðisbrotum, að kæra strax. Vísir/Anton Brink
Sér eftir að hafa ekki kært

Í dag eru liðin fimm ár, hún er trúlofuð og leitar nú að íbúð með unnusta sínum en þau eru hjá foreldrum Kristínar Þóru á meðan þau safna. Kristín Þóra er virkilega hamingjusöm og hlakkar til að flytja að heiman og stofna eigin fjölskyldu.

„Ég er enn að vinna í sjálfri mér, það er orðið auðveldara. En um leið og ég heyri orðið nauðgun eða sé eitthvað tengt nauðgun í sjónvarpinu þá fæ fer ég mjög mikið að hugsa um þetta og það getur alveg dregið mig niður. Stundum er ég reið og stundum er ég sár. Þetta fer aldrei og ég mun alltaf muna eftir þessu.“

Ákveðnar aðstæður eru Kristínu Þóru erfiðar og enn þann dag í dag á hún erfitt með að finna lykt af mold, sem hún tengir sterkt við minningar af nauðguninni. Hún sér mjög mikið eftir því núna að hafa ekki kært manninn í Barcelona.

„Ég hvet aðra til að klára þetta strax, þó að það verði ekki dæmt manni í hag þá er betra að vita að maður gerði allt sem maður gat. Það er örugglega stærsti sigurinn að vita að þú hafir kært. Einnig að  fara beint upp á bráðamóttöku í skoðun. Ég skil samt alveg að það er erfitt að kæra en það er langstærsta eftirsjáin mín að hafa ekki farið upp á lögreglustöð strax.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×