Umfjöllun og viðtöl við KR-inga: Keflavík - KR 85-102 | KR með sinn fyrsta sigur í þremur leikjum

Magnús Einþór Áskelsson skrifar
KR-ingar spiluðu vel í kvöld.
KR-ingar spiluðu vel í kvöld. vísir/eyþór
Keflvíkingar byrjuðu leikinn mjög vel og komust strax í 8-0, boltinn gekk vel á milli manna í sókninni og fengu þeir góð skot. KR-ingar voru aldrei langt undan og tóku mörg sóknarfráköst sem skiluðu þeim stigum. En heimamenn voru með forystuna eftir fyrsta leikhuta 27-22.

KR-ingar komu mjög ákveðnir til leiks í örðum leikhluta og komust yfir eftir 4 mínútur. Keflvíkingar náðu ekki sama flæði í sóknarleik sinn og í fyrsta leikhluta. Gestirnir héldu áfram að rífa niður sóknarfráköst sem skiluðu oftast stigum og fóru með níu stiga forystu til leikhlés 47-46.

Í þriðja leikhluta reyndi Keflavík að koma til baka og náðu að minnka muninn í sex stig en KR-ingar voru alltaf fljótir að svara, héldu áfram að spila góða vörn og létu boltann ganga vel í sókninni. Gestirnir náðu mest tólf stiga forystu og leiddu með níu stigum fyrir síðasta leikhlutann.

KR-ingar byrjuðu fjórða leikhluta mjög vel og voru fljótir að koma sér í þægilega forystu sem Keflvíkingar náðu aldrei að ógna. Gestirnir sigldu öruggum sigri í hús 85-102, sennilega besti leikur KR-inga í vetur sem sýndu loksins úr hver þeir eru gerðir

Af hverju vann KR?

KR-ingar voru betri á öllum sviðum körfuboltans í kvöld og voru ofar í flestum tölfræði þáttum. Þeir náðu að binda vörn sína virkilega vel saman og gáfu Keflvíkingu ekki mörg opin skot fyrir utan í byrjun leiks.

Keflvíkingar hafa oft spilað betur og vantaði framlög frá fleirum sem eru vanir að leggja sitt að mörkum s.s.frá  Daða Lár Jónssyni og Magnúsi Má Traustasyni. Einnig var augljóst að nýr erlendur leikmaður leikmaður Keflvíkur Stanley Robinson er ekki í góðu leikformi.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá KR spilaði Jalen Jenkins sennilega sinn besta leik fyrir félagið en hann skoraði 20 stig og tók 12 fráköst, þar af 7 sóknarfráköst.  Darri Hilmarsson var einnig öflugur en hann skoraði 18 stig og gaf 6 Stoðsendingar. Kristófer Acox átti skínandi góðan leik með 16 stig og 9 fráköst. Hjá Keflavík skoraði Stanley Robinson 17 stig, Guðmundur Jónsson skoraði 14 stig og Reggie Dupree skoraði 12 stig.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Keflvíkinga gekk mjög illa og óásættanlegt fyrir þá að fá 105 stig á sig á heimavelli. Heimamenn töpuðu frákasta baráttunni og fengu fjölmörg stig á sig eftir sóknarfráköst þá sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem KRingar rifu niður 13 slík.

Tölfræði sem vekur athygli

KR-ingar unnu frákastabaráttuna 49-31 sem var grunnurinn að sigrinum í kvöld. KR-ingar fengu einnig meira framlag frá bekknum sem er athyglisvert í ljósi þess að fjóra leikmenn (þar af þrjá lykilleikmenn) vantaði í kvöld.

Hvað næst?

Nú tekur við hlé í deildinni þar til í byrjun desember en þá taka við stórleikir hjá báðum liðum. Keflavík fer í Ljónagryfjuna í Njarðvík í baráttuna um Reykjanesbæ.

KR fær í heimsókn efst lið deildarinnar Tindastól Í DHL höllina.

Keflavík-KR  85-102 (27-22,47-56,65-74,85-102)

Keflavík: Stanley Robinson 17/9 fráköst, Ragnar Örn Bragason 14, Guðmundur Jónsson 14, Reggie Dupree 9, Hilmar Pétursson 9  Þröstur Leó Jóhannsson 7, Daði Lár Jónsson 5,Magnús Már Traustason 5, Ágúst Orrason 2, Arnór Sveinsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0, Davíð Páll Hermannsson 0.

KR: Jalen Jenkins 20/12 fráköst, Darri Hilmarsson 18, Kristófer Acox 16, Björn Kristjánsson 13, Alen Carter 12, Sigurður Þorvaldsson 9, Ísak Hlynsson 8, Orri Hilmarsson 6, Benedikt Lárusson 0, Karvel Schram 0, Áki Hynsson 0, Sigvaldi Eggertsson 0.

Finnur Freyr: Stoltur af strákunum

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, var mjög feginn að hafa náð sigri í Keflavík í kvöld eftir tvo slaka leiki hjá sínum mönnum.

„Mjög ánægður, mjög stoltur af frammistöðu strákana eftir tvær daprar frammistöður í röð þannig að allt hrós á þá. Við notuðum skotklukkuna vel og tókum góð skot,“  sagði Finnur Freyr.

Næsti leikur er heimaleikur eftir tvær vikur gegn toppliði Tindastóls og býst Finnur að hann fá einn leikmann til baka úr meiðslum fyrir þann slag.

„Það eru ágætis líkur að Pavel nái þeim leik, það veltur á því hvað hann nær að æfa fyrir þann leik, ef hann nær því ekki spilar hann ekki leikinn. Það er alveg ástæða að hann er ekki í landsliðinu núna og það verður bara koma í ljós. Tveggja vikna pása núna og mjög gott að fara ekki með þriðja tapið á bakinu í það,” sagði þjálfarinn.

Björn Kristjánsson: Vorum agressívir og flottir

Björn Kristjánsson, leikmaður KR, var sáttur hvernig liðið spilaði þennan leik þrátt fyrir að hafa byrjað flatir.

„við komum út flatir alveg eins og við vorum búnir að gera í seinustu leikjum en náðum að ekki láta það hafa áhrif á okkur eins og síðustu leikjum og náðum þessu fljótt upp og vorum agressívir og flottir bara út allann leikinn. Það er hægt að byggja ofan á þetta,“ sagði Björn.

Friðrik Ingi Stefánsson, þjálfari Keflavíkur, vildi fara inní klefa áður en hann talaði við fréttamann.

Þegar fréttamaður ætlaði að athuga með það var hann farinn úr húsi. Enginn leikmaður Keflavíkur sem fréttamaður talaði við vildi veita viðtal.  

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira