Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Fjölnir 32-19 | Haukarnir rúlluðu yfir nýliðanna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. vísir/eyþór
Haukar unnu auðveldan sigur á Fjölni í tíundu umferð Olís-deildar karla, 32-19, en eftir að fyrri hálfleikurinn hafi verið í jafnvægi þá skildu leiðir í þeim síðari.

Haukarnir bættu því upp fyrir jafnteflið gegn Víkingum frá því í síðustu umferð, en Haukarnir eru með 15 stig í öðru til þriðja sæti deildarinnar. Fjölnismenn eru enn án sigurs í tíunda sæti.

Haukarnir byrjuðu leikinn mjög vel og virtust staðráðnir í að bæta upp fyrir leikinn slaka gegn Víkingum í síðustu umferð. Þeir spiluðu feykna góða vörn og Fjölnir skoraði einungis þrjú mörk fyrstu tuttugu mínútur leiksins!

Þá tók hins vegar við góður kafli gestanna og það virtist sem Haukarnir hefðu slökkt á sér. Þeir byrjuðu að spila óagaðari sóknarleik og boltinn fór að leka inn hjá Björgvini sem hafði varið eins og berserkur framan af hálfleiknum.

Gestirnir úr Grafarvogi breyttu stöðunni úr 8-3 í 8-7 og hörkuleikur í kortunum. Þá fékk Andri Berg Haraldsson hins vegar reisupassann fyrir brot á Jóni Þorbirni og við það riðlaðist aðeins varnarleikur Fjölnis. Heimamenn leiddu svo með þremur mörkum í hálfleik, 12-9.

Í síðari hálfleik varð þetta leikur kattarins að músinni. Haukarnir voru sterkari á öllum sviðum handboltans og gjörsamlega rúlluðu yfir nýliðanna.

Virkilega góður varnarleikur með Björgvin Pál í sínum ham þar fyrir bakvið varð þetta aldrei að leik í síðari hálfleik, en heimamenn unnu að lokum með 13 marka mun, 32-19.

Afhverju unnu Haukar?

Haukarnir eru bara einfaldlega með betra lið en nýliðarnir. Þegar Haukar spiluðu á sínu tempói í sókninni, sér í lagi í síðari hálfleik, þá fundu þeir oft færi, en gestirnir spiluðu einungis tæpar fimmtán góðar mínútur í þessum leik.

Geggjaður varnarleikur í síðari hálfleik skilaði þessum sigri hjá Haukum, en þegar Hauka-liðið fær bara 19 mörk á sig þá eru allar líkur á að þeir vinni leikina með yfirburðum með svona gott sóknarlið í þokkabót. Liðsheildarsigur þar sem margir lögðu hönd á plóg.

Hverjir stóðu upp úr?

Björgvin Páll var algjörlega magnaður í markinu, sér í lagi framan af fyrri hálfleik. Hákon Daði dró Haukavagninn í markaskorun eins og svo oft áður, en turnarnir Jón Þorbjörn og Heimir Óli voru líka öflugir í miðjublokk Hauka. Adam Haukur er að koma sterkur til baka eftir veikindi, en hann skoraði fimm mörk og Hákon Daði skilar alltaf góðri frammistöðu.

Kristján Örn Kristjánsson hefur átt betri daga, en hann var samt sem áður markahæstur í liði Fjölnismanna. Hann var þó eini sem nánast tók á skarið, en Haukarnir reyndu að skerma hann mikið út og það tókst svo um munaði.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Fjölnis var algjör hörmung fyrri hlutann af fyrri hálfleik, en þeir skoruðu einungis eitt mark fyrstu tólf mínúturnar. Einnig voru þeir að klúðra dauðafærum á mikilvægum augnablikum í leiknum og láta Björgvin verja frá sér algjör dauðafæri. Það hélt áfram í síðari hálfleik. Sóknarleikur Hauka var svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir í fyrri hálfleik; oft á tíðum taktlaus og oft litið betur út, en þeir sakna auðvitað Tjörva Þorgeirssonar. Þeir litu þó mun betur út í þeim síðari - áræðnir og flottir.

Hvað gerist næst?

Liðin leika næst um aðra helgi, en Fjölnismenn fá Gróttu í heimsókn. Þar eru stig sem Fjölnismenn verða að hirða ætli þeir sér að halda sæti sínu í efstu deild, hvað þá láta sig dreyma um úrslitakeppni. Haukarnir mæta Valsmönnum í sömu umferð, en það er risaleikur og verður gaman að sjá Haukana í þeim leik.

Menn tóku vel á því í leiknum.vísir/eyþór
Björgvin Páll: Hefði getað skorað jafn mörg mörk og Daníel

„Þetta var góður leikur í nánast 60 mínútur. Þeir lentu á okkur á slæmum degi því við vorum að gera upp fyrir skituna í Víkinni,” sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, í samtali við Vísi í leikslok.

„Við vorum ferskir og flottirÞað var góð mótspyrna á tímabili, en við vorum klárir frá byrjun með húsið með okkur og þá er þetta ágætt.”

Haukarnir spiluðu virkilega góðan varnarleik og Fjölnismenn fundu fá svör við geysilega sterkum varnarleik Haukana.

„Geggjaður varnarleikur. Við mættum virkilega klárir og menn vildu sýna úr hverju þeir væru gerðir. Fjölnismenn eru ógeðslega vel spilandi og með flottan þjálfara sem er að gera virkilega góða hluti,” sem hélt áfram að hrósa Fjölni:

„Þetta eru vel skólaðir strákar sem eru að stíga sín fyrstu skref. Þeir eiga eftir að ná í fullt af punktum, ég get lofað ykkur því.”

Matthías Árni var aftur kominn í vörnina hjá Haukunum og Björgvin gantaðist aðeins með komu hans aftur, en sagði hann mikilvægan á bæði velli og í klefanum.

Já, svo klúðraði hann færi hérna í lokin. Hann hefði getað skorað jafn mörg mörk og Daníel. Það hefði verið gaman í klefanum ef það hefði gerst, en geggjað að fá hann í vörnina. Líka í klefann, þetta er æðislegur karakter,” en næst er stórleikur Hauka og Vals:

„Það er geðveikt verkefni. Maður er í þessu fyrir þessa leiki. Við erum að skríða upp töfluna og ætlum að halda okkur þarna uppi. Þetta er síðasti heimaleikurinn fyrir jól. Núna erum við bara á útivelli, eins og í NBA, sem við þurfum að spila vel í,” sagði Björgvin. ÍBV fer á heimavallar-skrið og Haukarnir á útivöll:

„Þeir eru búnir að vera klókir og eiga hrós skilið fyrir að gera þetta svona,” sagði Björgvin og hló.

Arnar náði ekki að kveikja neistann hjá sínum mönnum.vísir/eyþór
Arnar: Haukar númeri of stórir

„Erfið byrjun og svo breyttum við um vörn og unnum okkur vel inn í leikinn með 6-0 vörn,” sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis, um leikinn í kvöld.

„Við missum svo Andra útaf með rautt spjald. Það var högg fyrr okkur og svo gáfumst við bara upp síðustu tíu mínúturnar,” en hvað fannst Arnari um rauða spjaldið?

„Ég sá það ekki nægilega vel svo ég get ekki tjáð mig um það,” en Arnari fannst menn brotna full auðveldlega:

„Já, mér fannst það. Sóknarleikurinn var mjög lélegur heilt yfir í leiknum, en hann er bara kraftlaus og við erum að fá mörk úr alltof fáum stöðum.”

„Sumum stöðum erum við bara einfaldlega ekki að fá mark úr, þannig að það bara gengur ekki upp.”

Arnari fannst þetta ekkert risa skref aftur á bak í spilamennsku liðsins þó að það hafi verið stígandi í leik liðsins.

„Það er búið að vera fleiri fínar frammistöður en gegn Aftureldingu, en nei slæmt að fá svona tap. Haukar eru bara númeri of stórir fyrir okkur í dag. Þannig er staðan,” sagði Arnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira