Lífið

Ég sá allt og heyrði allt

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Barnavernd Reykjavíkur greip of seint inn í. Tíminn líður óskaplega hægt hjá barni í vondum aðstæðum,“ segir Alena sem segir að á sama tíma virðist hann renna hratt hjá í kerfinu sem tekst ekki að ráðast inn í aðstæður barna. "Það er vegna þess að þeir fullorðnu eru rétthærri,“ segir Alena sem tekur þátt í stofnun samtaka fósturbarna.
Barnavernd Reykjavíkur greip of seint inn í. Tíminn líður óskaplega hægt hjá barni í vondum aðstæðum,“ segir Alena sem segir að á sama tíma virðist hann renna hratt hjá í kerfinu sem tekst ekki að ráðast inn í aðstæður barna. "Það er vegna þess að þeir fullorðnu eru rétthærri,“ segir Alena sem tekur þátt í stofnun samtaka fósturbarna. Visir/Antonbrink
Alena Da Silva er rétt rúmlega tvítug og steig fram í þættinum Fósturbörn í umsjón Sindra Sindrasonar á Stöð 2 í vikunni. Þar lýsti hún uppvexti sínum og afskiptum Barnaverndar Reykjavíkur þar til að hún var sett í varanlegt fóstur til Svanhildar Sifjar Haraldsdóttur að verða þrettán ára gömul. Konu sem hún og systir hennar voru vistaðar hjá reglulega alla æskuna þegar ástandið á heimilinu var slæmt. Hún er komin til fundar við blaðamann á veitingastaðinn Gló í Faxafeni snemma morguns. Henni var alls ekki rótt áður en þátturinn fór í loftið. Það er kannski ekki skrítið, hún lýsir heimi barns sem er varnarlaust í vondum aðstæðum alkóhólisma og meðvirkni. Frásögnin gefur til kynna að í íslensku samfélagi sé réttur barna til góðs lífs minni en réttur foreldra til umgengni.

„Ég var mjög stressuð. Ég borðaði ekki í heilan dag og vissi ekki hvernig ég átti að vera. Ég var eirðarlaus og kvíðin en staðráðin. Ég var að segja frá mín vegna og til að styrkja börn og ungmenni í minni stöðu. Þau skortir fyrirmyndir og von um að lífið geti einn daginn orðið gott,“ segir Alena.

Hún hefur markvisst unnið úr áföllum barnæsku sinnar síðustu ár. Á unglingsárum sótti hún nokkur námskeið SÁÁ þar sem unnið var úr meðvirkni, það hefur styrkt hana. „Ég er lítið meðvirk með föður mínum og móður. Ég er það kannski með aðra hluti, ég er enn að vinna úr ýmsu. En mér gengur vel í þeirri vinnu,“ segir Alena.

Mikilvægt að nota röddina

Hún segir marga kunningja sína hafa haft samband við sig eftir þáttinn. Þeir hafi ekki áttað sig á því hversu erfitt ástandið var. „Þannig er það oftast. Meðvirknin gerir það að verkum að fólk þegir, mér finnst hins vegar mikilvægt að nota röddina. Ég hef hana og finn að hún er sterk, ég þarf að nota hana til að koma skilaboðum til krakka og ungmenna sem eru í svipaðri stöðu og ég var, vita ekki hvert þau eiga að leita. Vita ekki hvernig þeim á að líða, hvert þau geta leitað. Þegar ég var unglingur þá hefði ég þurft að hafa þessa fyrirmynd. Ég hefði þurft að hafa sterkari trú á að ég gæti átt góða og friðsamlega framtíð. Það voru oft erfiðir tímar þar sem ég vildi gefast upp. Ég brotnaði ekki alveg, ég held að systir mín sem er tveimur árum eldri en ég hafi farið verr út úr uppvexti okkar en ég.“



Alena og eldri systir hennar ólust upp hjá foreldrum sínum þar til Alena var þriggja ára gömul. „Ég á því miður sárafáar góðar minningar úr barnæsku. Pabbi var fársjúkur alkóhólisti og mamma glímir við andlega erfiðleika sem gera það að verkum að hún náði ekki tengingu við okkur. Gat ekki sýnt okkur umhyggju sem móðir. Mamma og pabbi skildu þegar ég var þriggja ára gömul. Ég á eina minningu sem er nokkuð sterk. Þá var mamma heima. Við læstum okkur inni í herbergi því við vissum að pabbi væri að koma fullur heim,“ segir Alena frá og segist halda að minningin sé svona sterk þrátt fyrir ungan aldur vegna þeirrar hræðslu sem hún fann fyrir.

„Eftir skilnaðinn urðum við eftir hjá pabba þótt hann væri fársjúkur alkóhólisti. Þótt aðstæður hafi verið skelfilegar hjá pabba þá kusum við frekar að vera hjá honum en mömmu. Okkur fannst hún ógnandi og óútreiknanleg, við vildum ekki vera hjá henni,“ segir Alena.

Móðir Alenu er frá Portúgal og Alena segist ekkert vita um bakgrunn sinn þar í landi. Hún viti að móðir sín eigi þrjú systkini sem hún vilji ekkert vita af. Hún sé frá litlum bæ í grennd við Porto. „Hún á að baki brotna barnæsku. Við systir mín höfum lítil tengsl við mömmu í dag. Hún lokaði á okkur.“





Alena og systir hennar á þeim tíma sem barnayfirvöld fara að grípa inn í líf þeirra.
Eftir þáttinn vildu margir spyrja Alenu: Hvar var stórfjölskyldan? Nágrannar? Vinir og kunningjar? „Svarið er að við systur eigum nokkra góða að. Mér þykir vænt um föðurfjölskyldu mína alla. Ömmu, afa og systur pabba sem bauð okkur alltaf til sín á jólunum. Margt gert sem var mikils virði. En þetta er lítil fjölskylda og það er mikil meðvirkni. Fólk fer í afneitun. Það vill kannski vel, en gerir ekki réttu hlutina. Vinnur kannski með sjúkdómnum en ekki gegn honum.“

Tekin úr leikskóla

Þrátt fyrir ömurlegar aðstæður systranna fyrstu æviárin hófust afskipti Barnaverndar Reykjavíkur ekki af þeim fyrr en systir Alenu byrjaði í fyrsta bekk í grunnskóla. Þá var Alena fjögurra ára gömul.

„Systir mín mætti í eitt skipti í skólann og svo mætti hún ekkert aftur. Hún var svo kvíðin að hún fann til líkamlegs sársauka. Hún bara gat ekki farið í skólann. Ég var hætt í leikskólanum á þessum tíma því það voru ekki til peningar fyrir vistinni þar.

Heimilið var í algjörri upplausn en þarna varð okkur til gæfu að Hilda kemur inn í líf okkar. Fósturmamma mín í dag. Systir mín fékk hana sem persónulegan ráðgjafa. Eitt af því fyrsta sem hún sagði við hana var: Mamma elskar mig ekki. Hún elskar bara Alenu. Sem var kannski ekki rétt, hún elskaði mig líklega ekki en náði samt betri tengingu við mig. Þessi orð segja margt um stöðuna. Ég sagði líka nokkur orð við hana Hildu. Til dæmis að mig langaði að byrja á leikskólanum aftur,“ segir Alena frá.

Svanhildur Sif Haraldsdóttir, sem jafnan er kölluð Hilda af ástvinum sínum, tók stelpurnar til sín og þær fengu að gista hjá henni þegar ástandið var slæmt á heimilinu. „Þegar hún var að skila okkur þá fann hún stundum ramma áfengislykt af pabba og fór bara með okkur heim til sín aftur. Svona gekk þetta árum saman. Við vorum hjá Hildu í lengri og styttri tíma. Ferlið var oftast þannig að þegar ástandið var verulega slæmt þá hringdum við á bakvakt eða á lögreglu til að fá aðstoð og Hilda tók við okkur. Þegar ég er níu ára og systir mín ellefu ára þá loksins erum við systir mín settar í fóstur í heilt ár til Hildu.“





Alena á grunnskólaaldri, þegar hún var vistuð títt hjá Hildu en send aftur heim.
„Nýtt líf“

Svo fór að faðir Alenu eignaðist kærustu. Þá þóttu aðstæður á heimilinu tryggari fyrir þær systur að mati Barnaverndar Reykjavíkur og þær voru sendar heim eftir tæpra ellefu mánaða vist hjá Hildu. „Það þótt nóg. Hann eignaðist kærustu sem átti hús. Hann lofaði okkur öllu fögru. Nú yrði lífið gott. Við skyldum líka fara til Portúgal. Þetta er sorglegt því að á þessum tíma var okkur farið að ganga vel. Skólinn gaf skýrslu um að við mættum vel í skóla. Við vorum hreinar og alltaf með nesti. Það liðu aðeins tveir dagar eftir að við komum heim þar til fylleríið byrjaði aftur. Þá voru þau tvö saman í því.“

Skömmuð fyrir að svíkja

Á þessum tíma var Alena í reglulegri umgengni hjá föður sínum, stuttum heimsóknum. „Ég vildi ekki vera í umgengni. Ég fékk skammir þegar ég hitti hann. Hann skammaði mig fyrir að svíkja hann, segja frá. Nú vissu allir! Þetta var ofsalega erfitt. Þegar Hilda náði í mig þá settist ég bara í bílinn og grét. Ég gat svo ekki farið í skólann daginn eftir, vanlíðanin var svo mikil. Ég var eyðilögð. Börn ráða ekki við svona. Meðvirknin er svo mikil. Börn vilja halda tryggð við foreldra sína, svona umgengni getur verið skaðleg. Sér í lagi þegar ekkert var gert til að setja föður mínum stólinn fyrir dyrnar. Hann fór aðeins einu sinni á Vog. Þá bara í sjö daga, sem er bara afeitrun. Hann þurfti aldrei að sýna og sanna að hann væri betri maður, að vinna í sínum sjúkdómi. Okkar réttur var miklu minni en hans.“

Þær systur höfðu báðar vonað að þær gætu átt gott líf með föður sínum. „Auðvitað vonaði ég alltaf að honum myndi batna. Að einhver myndi sýna virkilegan styrk, setja honum afarkosti. En það var aldrei gert. Þarna misstum við báðar von um að einhver gæti hjálpað okkur. Systir mín missti hana alveg. Ég nærri því. Það fylgdist enginn með okkur. Það fylgdist enginn með honum eftir þetta. Málinu okkar var lokað held ég. Þetta var slæmur tími. Ég átti þó góðar vinkonur og það hjálpaði mér mikið. Einhverra hluta vegna á ég auðvelt með að tengjast fólki. Ég held líka að ég hafi náð að varðveita góða eiginleika í mér. Að einhverju leyti er það systur minni að þakka,“ segir Alena og það dimmir yfir henni.

Hinir fullorðnu rétthærri

„Systir mín reyndi að halda verndar­hendi yfir mér. Stundum hélt hún fyrir eyrun á mér svo ég gæti sofnað þegar það var fyllerí. Hún var líka í vondri stöðu. Mamma hafnaði henni. Mér líka. En henni meira. Hún þurfti að vera mér eins konar móðir. Á sama tíma er hún bara barn og þurfti athygli. Ég fékk stundum þessa athygli sem hún þráði, sem yngsta barnið nýtur stundum. Ég veit að það hefur verið sárt. Barnavernd Reykjavíkur greip of seint inn í. Tíminn líður óskaplega hægt hjá barni í vondum aðstæðum,“ segir Alena sem segir að á sama tíma virðist hann renna hratt hjá í kerfinu sem tekst ekki að ráðast inn í aðstæður barna. „Það er vegna þess að þeir fullorðnu eru rétthærri. Við eigum minni rétt á góðu lífi en foreldrar okkar. Þannig er það bara, sama hverju aðrir reyna að halda fram.“

Varnarviðbragð Alenu var að draga sig í hlé. „Ég gat leikið mér tímunum saman einhvers staðar úti í horni. Það var mitt varnarviðbragð. Ég geri það enn í dag og er að vinna með þetta með sálfræðingi. Ég tek mér frí frá heiminum, fjarlægist hann, fylgist samt með. Ég sá allt. Ég heyrði allt.

Ég held að vegna þessa þá hafi pabbi orðið hissa þegar ég fékk loksins nóg,“ segir Alena.

Hún var orðin tólf ára þegar hún fékk nóg. Þremur árum eftir að hún flutti aftur heim frá öruggu skjóli Hildu. „Ég var komin með nóg. Ég vildi ekki lifa lífinu svona lengur. Ég var lítið heima hjá mér. Ég var hjá vinkonum mínum og á flakki. Systir mín líka en á þessum tíma var hún komin með kærasta. Ég var svolítið ein. Ég borðaði eiginlega ekkert. Var með alvarlegan næringarskort svo það sá á mér. Ég var marin um allan líkamann. Skólinn hafði miklar áhyggjur af mér. Félagsráðgjafi reyndi ítrekað að ná til mín. En ég þagði lengi vel. Sagði ekki orð. Ég bara trúði ekki að nokkur gæti hjálpað okkur systrum. Ekkert hafði gerst. Ekkert borið árangur. En svo bara gerðist það. Ég sagði frá. Systir mín varð reið við mig. Nú myndu allir krakkar vita að við hefðum orðið fyrir ofbeldi. Ég vildi ekki bera þessa ábyrgð lengur. Hún er foreldra minna. Ég hringdi svo í Hildu og spurði hana hvort einhver hefði haft samband við hana. Hún neitaði. Ég sagði henni að ég hefði beðið um að koma til hennar. Búa hjá henni.“





Alenu finnst erfitt en nauðsynlegt að stíga fram. Það muni gagnast öðrum í svipaðri stöðu.Vísir/Antonbrink
Erfitt að segja satt

Og það fékk hún.

„Hún bjargaði lífi mínu. Ég var oft svo illa farin af hræðslu og kvíða að ég svaf upp í hjá henni. Hélt í hana og vildi ekki sleppa. Það leyfði hún mér. En systir mín vildi ekki koma. Það var of seint og hún var komin með nóg af þessu hringli í kerfinu. Hún hefur beðið um hjálp síðan hún var lítið barn. Algjörlega búin að gefast upp á kerfinu. Hún sem er svo klár. Ég er reið yfir hennar hlutskipti en ég veit að ég er að gera rétt með því að segja frá. Segja satt þótt það sé erfitt. Það gæti fært mínum nánustu kjark.“

Alena hefur ekki verið í góðu sambandi við móður sína í nokkur ár. „Hún lokaði alveg á okkur. Við áttum gott spjall samt þegar ég var þrettán ára. Þá kom hún til Hildu og við spjölluðum. Það var gott og ég geymi það. En svo lokaði hún aftur. Ég hef núna farið tvisvar til Portúgal og er forvitin um bakgrunn minn. Ég þarf að rækta úr því sem ég get.“

Pabbi hennar er á Spáni. „Hann veit að ég steig fram. Hann spurði mig og ég sagði honum að svona væri þetta. Ég hefði ákveðið að segja frá þessu. Mér þykir vænt um hann. Það má segja að mér þyki svo vænt um hann að ég geri þetta.“





Alena með Hildur, fósturmóður sinni.
Hringið í lögregluna!

Hún biðlar til fólks að hætta meðvirkni og skipta sér af aðstæðum þar sem ljóst er að börn séu í hættu,. „Pabbi tók mig með á pöbbarölt. Ef fólk sér börn í slíkum aðstæðum þá verður það að hafa samband við lögreglu eða bakvakt Barnaverndar. Ekki hika.“

Framtíðin þykir henni björt. Hún er nýflutt í litla leiguíbúð og vinnur á sambýli og aðstoðar Hildu við að passa börn. „Ég á móður í henni og fjölskylda hennar er fjölskylda mín. Ég er þakklát fyrir það sem ég hef fengið í minn hlut. En nú vil ég láta gott af mér leiða. Ég tek þátt í stofnun samtaka fósturbarna. Við þurfum að eiga okkur sterka rödd og vinna í því að bæta rétt okkar. Það er kominn tími til. Svo langar mig að mennta mig og taka stúdentspróf. Halda áfram með líf mitt. Það er margt sem ég hef farið á mis við en ég er nógu sterk til að sækja það. Ég er nógu vitur til að þiggja hjálp til þess.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×