Lífið

Virðuleg hæna vakti athygli þegar hún vappaði í rólegheitum um Vesturbæ

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir skrifar
Hænan naut lífsins í Vesturbænum.
Hænan naut lífsins í Vesturbænum. Mynd/Ragnar Visage
Ónefnd hæna vappaði nýlega ákveðnum hænuskrefum um Vesturbæinn. Fjölmargir vegfarendur urðu hennar varir og reyndu að festa þá litlu á mynd. Eins og sést á meðfylgjandi mynd þá virðist sú fiðraða rata nokkuð vel um hverfið, ekki fylgdi sögunni hvort hún virti umferðarreglurnar þegar hún fór yfir Hringbrautina.

„Þessi á leið í Vesturbæjarskólann, rétt slapp yfir Hringbrautina án þess að verða að kjúklingakássu ... allir svo vegan í Vesturbænum að þetta er safe hérna,“ sagði Ragnar Visage á Facebook-síðu sinni og var fljótur að smella af henni mynd.

Einnig fréttist af hænunni við Vesturbæjarskóla þar sem hún hékk á grindverki, þar sem ekkert var prikið, og stuttu síðar sást til hennar á Framnesveginum. Hænan víðförla varð tilefni til mikillar umræðu á íbúasíðu Vesturbæinga á Facebook þar sem spássitúr hennar um hverfið var vel tekið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×