Innlent

Fjarri markmiðum um útgjöld til þróunarmála

Sveinn Arnarsson skrifar
Ísland hefur meðal annars unnið að þróunarsamvinnumálum í Úganda.
Ísland hefur meðal annars unnið að þróunarsamvinnumálum í Úganda. Vísir/gunnar salvarsson
Ísland varði í fyrra um sjö milljörðum króna í alþjóðlega þróunarsamvinnu. Þar af ráðstafaði utanríkisráðuneytið um fimm milljörðum en um tveir milljarðar komu úr öðrum ráðuneytum.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa ríki heims skuldbundið sig til þess að 0,7 prósent vergra þjóðartekna hvers ríkis skuli renna til þróunarsamvinnu.

Flest þeirra ríkja sem við berum okkur saman við hafa náð þessu markmiði eða hafa tímasett viðmið til að ná settu marki. Má þar nefna Norðurlöndin sem leggja mikla áherslu á 0,7 prósenta markmiðið.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Finnar verja 0,55 prósentum vergra þjóðartekna til þróunarsamvinnu sem er nær tvöfalt meira en við. Danir verja 0,85 prósentum, Norðmenn 1,05 prósentum og Svíar standa hæst allra en þeir verja 1,41 prósenti vergra þjóðartekna sinna til þróunarmála. Hafa ber í huga að þetta eru tölur frá árinu 2015. Þá varði Ísland 0,24 prósentum til þróunarmála.

Ísland hefur samþykkt og styður þetta 0,7 prósenta markmið. Sett var tímasett áætlun um hækkun framlaga á árunum 2012-2016 með það að markmiði að framlög færðust úr því að vera 0,26 prósent í 0,42 prósent. Ljóst er að við höfum alls ekki staðið við það markmið.

„Okkur hefur ekki gengið nógu vel og við eigum að gera betur,“ segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG og fulltrúi flokksins í þróunarsamvinnunefnd utanríkisráðuneytisins.

Jóna Sólveig ­­Elí­nardóttir.
„Við í Vinstri grænum höfum margsinnis bent á þetta og viljað gera betur.“

Ísland er aðili að þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. og hefur verið þar í fjöldamörg ár. Af þeim 30 ríkjum sem þar eiga sæti situr Ísland í 19. sæti yfir útgjöld til þróunarmála.

Í síðustu samþykktu þróunarsamvinnuáætlun átti að hækka framlög skart árið 2015 og ná markmiðinu um 0,7 prósent árið 2019. Gera átti ráð fyrir því að framlögin yrðu 0,5 prósent á þessu ári. Ljóst er að svo verður ekki.

Jóna Sólveig Elínardóttir, formaður utanríkismálanefndar á síðasta kjörtímabili, segir það langtímamarkmið að ná 0,7 prósenta markinu. „Auðvitað er það markmið stjórnvalda og augljóst að það þarf að setja duglega í málaflokkinn. Við eigum að hafa metnað til þess,“ segir Jóna Sólveig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×