Enski boltinn

Stórleikur á Emirates í hádeginu │ Myndband

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Enska úrvalsdeildin byrjar aftur að rúlla í dag eftir landsleikjahléið þegar 12. umferðin hefst með átta leikjum.

Hádegisleikur dagsins er nágrannaslagur Arsenal og Tottenham á Emirates. Christian Eriksen kemur sjóðheitur eftir að hafa tryggt Dani á HM með þrennu og Harry Kane ætti að vera úthvíldur, en hann var ekki með í landsliðsverkefnum Englands.

Sex leikir verða á dagskrá klukkan þrjú. Bournemouth tekur á móti nýliðum Huddersfield á suðurströndinni. Bournemouth situr í sautjánda sæti deildarinnar, einu stigi fyrir ofan fallsæti. Huddersfield er hins vegar á fínu flugi í tíunda sætinu með fimmtán stig.

Jóhann Berg Guðmundsson fær Swansea í heimsókn á Turf Moor. Burnley er í sjöunda sæti deildarinnar, janft að stigum og Liverpool og Arsenal. Swansea er hins vegar í bullandi vandræðum í fallslagnum, með aðeins átta stig úr fyrstu ellefu leikjunum.

Botnlið Crystal Palace fær Gylfa Þór Sigurðsson og félaga í heimsókn. Everton tókst loks að ná í sigur í síðustu umferð og kom sér upp úr fallsætinu. Það er sóknarfæri fyrir þá í dag er þeir mæta liði sem aðeins hefur unnið einn leik og gert eitt jafntefli það sem af er vetri.

Topplið Manchester City sækir refina í Leicester heim. Leicester er í tólfta sæti með 13 stig og freista þess að verða fyrsta liðið til þess að sigra City. Guardiola og hans menn hafa skorað 15 mörkum meira heldur en næst markahæsta liðið í deildinni og aðeins tapað tveimur stigum á tímabilinu.

Jurgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool fá Southampton í heimsókn á Anfield. Liverpool er í fimmta sæti, þremur stigum á eftir Chelsea í fjórða sætinu. Southampton er í 13. sæti með 13 stig.

Chelsea mætir West Bromwich Albion á Stamford Bridge. West Brom eru í botnslagnum í deildinni, eru með tíu stig í 16. sæti.

Lokaleikur dagsins er svo viðureign Manchester United og Newcastle. United þarf sigur til að halda lífi í titilbaráttunni, en liðið er átta stigum á eftir Manchester City. United er með bestu vörn deildarinnar, en liðið hefur aðeins fengið á sig fimm mörk. Newcastle hefur hins vegar aðeins skorað 10 mörk í 11 leikjum.

Leikir Arsenal og Tottenham, Liverpool og Southampton og Manchester United og Newcastle verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×