Erlent

Þúsundir mótmæla í Simbabve og krefjast afsagnar Mugabe

Þórdís Valsdóttir skrifar
Simbabvebúar krefjast þess að Mugabe segi af sér. Þetta er í fyrsta sinn sem íbúar Simbabve geta mótmælt án þess að óttast handtöku.
Simbabvebúar krefjast þess að Mugabe segi af sér. Þetta er í fyrsta sinn sem íbúar Simbabve geta mótmælt án þess að óttast handtöku. vísir/afp
Þúsundir mótmæla í Simbabve og krefjast afsagnar Mugabe

Þúsundir Simbabvemanna tóku þátt í kröfugögu í höfuðborginni Harare í dag og kröfðust þess að forseti Simbabve, Robert Mugabe, segði af sér.

Mugabe birtist almenningi í fyrsta skipti í gær frá því herinn hneppti forsetann í stofufangelsi á þriðjudaginn. Kröfugangan er einstök að því leyti að þetta er í fyrsta sinn sem Simbabvemenn geta mótmælt forsetanum án þess að óttast handtöku.

Stjórnmálin í Simbabve eru í mikilli óvissu og Mugabe er enn í viðræðum við herinn og Suður afríska milligöngumenn. Búist var við því að Mugabe myndi segja af sér í kjölfar þess að herinn tók völdin, en allt kom fyrir ekki og hann hefur ekki enn stigið til hliðar.

Mugabe er 93 ára gamall og hefur verið forseti Simbabve í 37 ár.

„Þetta er eins og annar þjóðhátíðardagur fyrir okkur. Lengi vel hefur bara verið kúgun hérna. Þetta er í fyrsta sinn sem við höfum getað staðið hér og mótmælt,“ segir Martin Matanisa í samtali við Washington Post.


Tengdar fréttir

Herinn fagnar velgengni í Simbabve

Mikill árangur hefur náðst í aðgerðum hersins í Simbabve. Þetta segir í ríkisfjölmiðlinum Herald. Herforingjar fagna því að vel gangi að uppræta glæpamenn sem starfað hafa með forseta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×