Erlent

Malcolm Young er látinn

Anton Egilsson skrifar
Malcolm Young, til hægri á myndinni, ásamt bróður sínum Angus Young.
Malcolm Young, til hægri á myndinni, ásamt bróður sínum Angus Young. Vísir/AFP
Malcolm Young, gítarleikari og stofnmeðlimur áströlsku rokksveitarinnar AC/DC, er látinn 64 ára að aldri. Sky greinir frá þessu.

„Með sínum mikla eldmóði og einurð var hann drifkrafturinn í hljómsveitinni. Sem gítarleikari, lagahöfundur og hugsjónarmaður var hann fullkomnunarsinni og einstakur maður. Hann fylgdi alltaf eigin sannfæringu og sagði og gerði nákvæmlega það sem honum hugnaðist,“ segir í yfirlýsingu sem AC/DC sendi frá sér í dag.

Young hafði glímt við veikindi í rúmlega þrjú ár en greint var frá því apríl árið 2014 að Young myndi taka sér pásu frá hljómsveitarstörfum sökum slæmrar heilsu.  Í september á sama ári sendi sveitin svo frá sér tilkynningu þess efnis að Young væri endanlega hættur í hljómsveitinni.

Young stofnaði AC/DC árið 1973 ásamt  yngri bróðir sínum Angus. AC/DC hefur selt meira en 200 milljón plötur á 44 ára ferli sínum og breiðskífan Back in Black, sem kom út árið 1980, er sú fimmta mest selda í tónlistarsögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×