Erlent

Sagði ásakanir um kynferðisofbeldi ekki á rökum reistar en biðst nú afsökunar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lena Dunham, hefur verið hávær í stuðningi sínum við þolendur kynferðisofbeldis í gegnum tíðina.
Lena Dunham, hefur verið hávær í stuðningi sínum við þolendur kynferðisofbeldis í gegnum tíðina. Vísir/AFP

Bandaríska leikkonan Lena Dunham, sem þekktust er fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttaröðinni Girls, baðst afsökunar á því að hafa komið handritshöfundi þáttanna til varnar. Handritshöfundurinn var sakaður um kynferðisofbeldi í vikunni.

Lögreglan í Los Angeles rannsakar nú ásakanir sem bornar hafa verið á hendur einum handritshöfunda sjónvarpsþáttanna Girls, Murray Miller. Leikkonan Aurora Perrineau sakaði Miller nýlega um að hafa nauðgað sér.

Lena Dunham, sem fór með aðahlutverk sjónvarpsþáttanna vinsælu, sagðist „fullviss“ um að ásakanirnar væru byggðar á misskilningi og að ekki hefði verið greint rétt frá málinu þegar það birtist fyrst í fjölmiðlum í vikunni.

Dunham, sem í gegnum tíðina hefur verið hávær í stuðningi sínum við þolendur kynferðisofbeldis, var harðlega gagnrýnd fyrir þess ummæli sín og virðist nú sjá eftir þeim. Í færslu, sem hún birti á Twitter-reikningi sínum í gær, sagðist Dunham hafa „í einfeldni sinni“ staðið í þeirri trú að skoðun sín væri mikilvæg en væri nú búin að átta sig á því að ekki hefði verið tímabært að senda frá sér yfirlýsingu um málið.

Perrineau sakaði Miller um að hafa nauðgað sér árið 2012, þegar hún var aðeins 17 ára gömul. Miller þvertekur fyrir ásakanirnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×