Innlent

Sex slasaðir eftir rútuslys á Snæfellsnesi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sex slösuðust þegar lítil rúta fór á hliðina á Snæfellsnesvegi við Lýsuhól á sjötta tímanum. Mikill viðbúnaður var vegna slyssins.

Vonskuveður og hálka var á slysstað en björgunarsveitir, lögregla og slökkvilið voru kölluð út ásamt því að hópslysaáætlun var virkjuð. Læknir var fljótur á vettvang og gekk greiðlega að koma farþegum rútunnar úr rútunni. Fimmtán manns voru um borð í rútunni þegar hún fór á hliðina.

Ekki er vitað um alvarleika meiðsla þeirra sem slösuðust en þyrla Landhelgisgæslunnar var send á vettvang og flutti hún slasaða á brott til Reykjavíkur. Aðrir slasaðir farþegar voru ferjaðir á brott í sjúkrabíl en þeir sem reyndust óslasaðir voru fluttir með annarri rútu á Lýsuhól.

Snæfellsvegi var lokað um tíma vegna slyssins en sem fyrr segir var mikil hálka á veginum. Lenti sjúkrabíll meðal annars út af veginum á leið á vettvang. Greiðlega gekk þó að koma honum aftur upp á veginn og hélt hann áleiðis á slysstað.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Rútan fór á hliðina á Snæfellsvegi við Lýsuhól.Loftmyndir.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×