Innlent

Katrín hefur ekki áhyggjur af tæpum meirihluta gömlu stjórnarandstöðuflokkanna í ríkisstjórn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ræða málin daginn eftir kjördag við höfuðstöðvar 365 þegar þau mættu í Kosningauppgjör Stöðvar 2.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ræða málin daginn eftir kjördag við höfuðstöðvar 365 þegar þau mættu í Kosningauppgjör Stöðvar 2. vísir/anton brink
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur ekki áhyggjur af tæpum meirihluta VG, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata í hugsanlegri ríkisstjórn.

Flokkarnir fjórir, sem voru í stjórnarandstöðu á seinasta kjörtímabili, eru nú með 32 manna meirihluta á Alþingi og hafa átt í óformlegum viðræðum síðustu daga um myndun ríkisstjórnar.

Bæði Framsóknarflokkurinn og Píratar hafa haft orð á því að þessi meirihluti sé helst til of tæpur og formaður Samfylkingarinnar hefur talað um að það væri skynsamlegt að styrkja hugsanlega stjórn þessara flokka. Formaður Viðreisnar segir sinn flokk ekki hluta af samtölum gömlu stjórnarandstöðuflokkanna.

Vísir greindi frá því í gærkvöldi að sex flokka ríkisstjórn væri í burðarliðnum, það er stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir ásamt Viðreisn og Flokki fólksins. Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn yrðu þá einir í stjórnarandstöðu en greint var frá því í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að hugmynd um sex flokka ríkisstjórn hefði verið andvana. 

„Við erum bara að tala saman ennþá þessi fjögur sem höfum verið að tala saman. Þannig lítur þetta út,“ segir Katrín Jakobsdóttir í samtali við Vísi en bætir við að það séu allir að tala saman.

„Það eru allir að tala saman. Líka út fyrir þessa flokka og ég er að tala við fleiri því það eru engar formlegar viðræður. Þetta er bara staðan sem er ennþá uppi og alveg óbreytt þannig séð. Við fjögur höfum verið að velta upp möguleikanum á fjögurra flokka stjórn en ég hef líka heyrt í fleirum.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, stendur í ströngu þessa dagana og reynir til þrautar að ná saman fjögurra flokka ríkisstjórn gömlu stjórnarandstöðuflokkanna.vísir/ernir
Allt óformleg samtöl og ekkert ákveðið

Þá segir hún aðspurð að hún hafi ekki haft áhyggjur af tæpum meirihluta flokkanna fjögurra.

„Ekki ef fólk treystir sér að fara af fullum krafti í verkefnið. Það er bara þannig og er matsatriði hvers flokks. Við erum bara að fara yfir þetta í okkar baklandi og hvert við annað og eins og ég segi þá erum við örugglega öll að ræða við einhverja fleiri.“

Katrín vill ekki svara því beint við hvaða fleiri flokka en hina stjórnarandstöðuflokkana hún hefur rætt.

Mörgum er eflaust í fersku minni hversu langan tíma stjórnarmyndunin tók síðast eða um tíu vikur. Katrín segir að hún hafi það á tilfinningunni að fólk sé raunsærra nú og meðvitaðara um að segja ekki of mikið í fjölmiðlum. Stjórnarmyndun gæti því tekið skemmri tíma nú.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að hugmynd um sex flokka ríkisstjórn hafi í raun ekkert verið mikið rædd.

 

„Það er bara verið að ræða saman óformlega og ekkert í rauninni ákveðið,“ segir Logi.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum á mánudag. Vísir/Anton Brink
Á einhverjum tímapunkti þurfa aðilar að einbeita sér að einu verkefni

Spurður um viðræður stjórnarandstöðuflokkanna ítrekar hann að allt sé mjög óformlegt.

„Það er ekki þannig að þetta séu einhverjar viðræður. Þetta eru samtöl.“

Aðspurður um eins manns meirihluta og hvort hann hafi áhyggjur af því segir Logi að ef menn séu einbeittir og nái góðum málefnagrunni þá sé 32 manna meirihluti eitthvað sem getur alveg gengið.

„Ég hef hins vegar sagt það bara fyrir okkur í Samfylkingunni að það gæti verið skynsamlegt að styrkja þetta,“ segir Logi en bætir við aðspurður þá hvort hann hafi ekki áhyggjur af tæpum meirihluta:

„Ef menn leggja af stað í leiðangur og allir eru mjög ákveðnir um tilgang ferðarinnar, hvert á að fara og á hvaða farartæki þá hef ég bara góða reynslu af samvinnu við fólk.“

Enginn formaður er með formlegt stjórnarmyndunarumboð enda báðu formennirnir Guðna Th. Jóhannesson, forseta, um andrými til óformlegra viðræðna þegar þeir gengu hver á fætur á öðrum á fund hans á föstudag. Logi segir að það sé gott að hafa þetta svigrúm.

„Á meðan fólk er að vinna vinnuna sína og að reyna raunverulega að mynda hér ríkisstjórn þá í rauninni er þetta ágætis fyrirkomulag. En á einhverjum tímapunkti verður það að gerast að aðilar einbeiti sér að einhverju einu verkefni en séu ekki með hugann við margt í einu, en í augnablikinu held ég að þetta sé bara ágætt eins og það er.“

Sigurður Ingi var þriðji stjórnmálaleiðtoginn á fund forseta á mánudag. Hann segir það ekki ganga endalaust að forystufólkið ræði óformlega saman; hlutirnir verði að skýrast í dag eða í síðasta lagi á morgun. Vísir/Ernir
Vill að hlutirnir skýrist í dag eða í seinasta lagi á morgun

Sigurður Ingi Jóhannson, formaður Framsóknarflokksins, vill ekkert bregðast við fréttum af hugsanlegri sex flokka ríkisstjórn en greint var frá því í hádegisfréttum Bylgjunnar að hugmyndin að slíkri ríkisstjórn hafi komið frá honum. Hún hafi hins vegar verið andvana fædd þar sem undirtektir annarra við henni hafi ekki verið góðar.

Aðspurður hvernig staðan er og hvort hún sé eitthvað að skýrast segir Sigurður:

„Ég held að þetta gangi alveg þokkalega. Þetta eru ekki margir dagar og þetta mun væntanlega skýrast, ef ekki í dag þá á morgun.“

Varðandi eins manns meirihluta flokkanna fjögurra bendir Sigurður Ingi á að seinasta ríkisstjórn hafi verið með 32 manna meirihluta og lifði hún aðeins í rúma átta mánuði.

„Ef maður er bara raunsær þá má ekkert út af bregða í svona tæpum meirihluta. Á móti þá er það stundum þannig að þegar það er tæpt þá þétta menn raðirnar betur. Þetta er bara hluti af þeim vangaveltum hvernig hægt er að mynda starfhæfa ríkisstjórn,“ segir Sigurður Ingi.

Flokkarnir sem myndi ríkisstjórn sameinist um það sem sameinar þá

„Aðalatriðið er kannski þetta að við núverandi aðstæður þar sem efnahagsástandið er mjög gott og tækifæri til uppbyggingar mikil þá ættu flokkar sem eru að fara í ríkisstjórn, hverjir sem það nú verða, að sameinast um það sem sameinar þá, að bæta samfélagið, í staðinn fyrir að vera kannski með á lofti málefni sem sundra bæði flokkum og þjóð.“

Eins og til dæmis Evrópusambandið?

„Ég ætla ekki að taka neitt dæmi. Það er einfaldlega tækifæri til þess að gera vel í því að bæta samfélagið með stórum verkefnum sem bæði flokkarnir eru samstíga um og sameina þjóðina,“ segir Sigurður Ingi.

Varðandi tímarammann og hversu langan tíma hann telji að það taki að mynda stjórn segir Sigurður Ingi að það gangi ekki endalaust að óformlegar viðræður séu í gangi.

„Hlutirnir verða að skýrast í dag eða í síðasta lagi á morgun,“ segir Sigurður.

 

En er hann bjartsýnn á að það taki styttri tíma nú að mynda ríkisstjórn heldur en í fyrra?

„Já, ég held að það séu allir reynslunni ríkari.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ræddi við fjölmiðlamenn fyrir utan Bessastaði á mánudag. Vísir/Eyþór.
Segir Viðreisn ekki inni í viðræðum stjórnarandstöðuflokkanna

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir flokkinn ekki vera inni í viðræðum gömlu stjórnarandstöðuflokkanna.

„Ég mælti með því við forsetann að stjórnarandstöðuflokkarnir fengju svigrúm til þess að tala saman. Við erum ekki aðilar að þeim samtölum. Það eru alltaf einhver samtöl í gangi en við erum ekki aðilar að þessum samtölum,“ segir Þorgerður.

Aðspurð hvort að flokknum hugnist betur að vera í stjórnarandstöðu segir Þorgerður að það sem skipti mestu máli sé að Viðreisn skorist ekki undan ábyrgð. Það hafi flokkurinn sýnt þegar hann settist í ríkisstjórn fyrir tæpu ári.

„Þó að einhverjar aðrar leiðir séu kannski betri til lengri tíma litið fyrir flokkinn þá þarf bara að klára ákveðin verkefni og við munum ekki reyna að komast hjá samtölum. Meginmálið er að það eru einhver samtöl í gangi, viðræður á milli þessara flokka, og ég óska þeim bara velfarnaðar í því. Við erum bara að flýta okkur hægt í öllu þessu. Einhver ein leið er ekki sjálfgefin fyrir Viðreisn, meginmálið er að hér komist á stjórn sem verði hér til fjögurra ára, það er það sem almenningur er að biðja um.“


Tengdar fréttir

Hugmynd Sigurðar Inga um sex flokka ríkisstjórn andvana fædd

Katrín Jakobsdóttir vill reyna til þrautar að mynda ríkisstjórn gömlu stjórnarandstöðuflokkanna en formaður og varaformaður Framsóknarflokksins virðast hafa ólíkar áherslur þegar kemur að stjórnarmyndun. Töluverðar líkur eru á stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Miðflokks og Flokks fólksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×