Erlent

Manafort með þrjú vegabréf og miklar eignir

Atli Ísleifsson skrifar
Paul Manafort var látinn fara sem kosningastjóri Trump í ágúst á síðasta ári
Paul Manafort var látinn fara sem kosningastjóri Trump í ágúst á síðasta ári Vísir/AFP
Bandarísk dómsskjöl sýna að að fyrrverandi kosningastjóri Donald Trump, Paul Manafort, á þrjú vegabréf og milljónir dala á bankareikningum.

Þetta kemur fram í grein CNN, sem greinir jafnframt frá því að Manafort hafi ferðast til Kína, Mexíkó og Ekvador með síma og tölvupóstfang sem skráð var undir fölsku nafni.

Manafort og viðskiptafélagi hans, Rick Gates, voru á mánudaginn ákærðir, meðal annars fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum, brot sem eiga að hafa átt sér stað á árunum 2006 til 2017. Var ákæran í tólf liðum.

Þetta eru fyrstu ákærurnar í tengslum við rannsókn Robert Mueller á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum á síðasta ári. Auk þeirra Manafort og Gates var George Papadopoulos, utanríkismálaráðgjafi Trump í kosningabaráttunni, ákærður.

Manafort var látinn fara sem kosningastjóri Trump í ágúst á síðasta ári eftir að fram kom að hann hafi tekið ólöglega á móti 12 milljónum Bandaríkjadala frá Viktor Janúóvitsj, fyrrverandi Úkraínuforseta.

Í dómsskjölunum kemur fram að Manafort hafi síðasta áratuginn sótt tíu sinnum um bandarískt vegabréf og að hann búi nú yfir þremur slíkum. Þá eigi hann eignir sem nemi milli 19 og 136 milljónum Bandaríkjadala.


Tengdar fréttir

Segir málið snúast um Demókrata

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að stærstu fréttir undanfarinna daga séu ekki þær að áhrifamenn úr framboði hans hafi verið ákærðir.

Þetta þarftu að vita um Rússarannsókn Mueller

Rannsóknin á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum í fyrra hefur aftur ratað í kastljós fjölmiðla eftir að fyrstu ákærurnar í rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins og alríkislögreglunnar voru birtar á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×