Erlent

Opinber skýrsla um loftslagsbreytingar stangast á við yfirlýsingar stjórnar Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Mengunarský liggur yifr Los Angeles. Bruni manna á jarðefnaeldsneyti er önnur helsta uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda.
Mengunarský liggur yifr Los Angeles. Bruni manna á jarðefnaeldsneyti er önnur helsta uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda. Vísir/AFP
Umfangsmesta skýrsla um loftslagsvísindi sem unnin hefur verið á vegum bandarísku alríkisstjórnarinnar kippir stoðum undan málflutningi Donalds Trump forseta og margra úr stjórn hans sem hafa dregið í efa ábyrgð manna á loftslagsbreytingum.

Ljóst hefur verið um áratugaskeið að losun manna á gróðurhúsalofttegundum veldur þeim loftslagsbreytingum sem nú eiga sér stað á jörðinni. Uppspretta hennar er fyrst og fremst bruni á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi og landbúnaður.

Sex hundruð blaðsíðna vísindaskýrsla bandaríska loftslagsmatsins staðfesti enn og aftur þær niðurstöður og að síðustu 115 árin séu hlýjasta skeiðið í sögu nútímasiðmenningar manna. Höfundar skýrslunnar eru vísindamenn frá fjölda bandarískra alríkisstofnana eins og Haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA), geimvísindastofnunarinnar NASA, orkumálaráðuneytisins auk fræðimanna úr háskólasamfélaginu.

Loftslagsmatið er lögbundið verkefni alríkisstjórnarinnar en síðast var slík skýrsla gefin út árið 2014. Richard Alley, jarðvísindamaður við Ríkisháskóla Pennsylvaníu, segir að skýrslan nú gangi lengra í að tengja breytingar í veðurfari við hlýnandi loftslag og vaxandi veðuröfga, að því er kemur fram í frétt NPR.

Skýrslunni hefur verið skilað til skrifstofu vísinda- og tæknistefnu Hvíta hússins. Trump hefur hins vegar ekki skipað neinn til að stýra þeirri skrifstofu nú þegar hátt í ár er liðið frá því að hann tók við embætti.

Afnema reglur sem áttu að berjast gegn loftslagsbreytingum

Trump tilkynnti í sumar að hann ætlaði að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu sem miða er að því að draga úr losun ríkja heims á gróðurhúsalofttegundum. Hann hefur haldið því fram að loftslagsbreytingar séu „kínversk gabb“.

Aðrir í ríkisstjórn hans hafa einnig afneitað viðteknum niðurstöðum loftslagsvísinda. Þannig hefur Umhverfisstofnun Bandaríkjanna undir stjórn repúblikanans Scott Pruitt keppst við að afnema reglur sem var ætlað að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

Pruitt hefur sjálfur sagt að trúi því ekki að koltvísýringur sé aðalorsakavaldur hnattrænnar hlýnunar. Hann er meðal annars sagður vinna að því að halda nokkurs konar opinberar kappræður á milli tveggja ræðuliða með og á móti samhljóða áliti vísindamanna á orsökum loftslagsbreytinga.


Tengdar fréttir

Umhverfisstofnunin fer yfir „pólitíska“ loftslagsskýrslu

Þrátt fyrir að stór loftslagsskýrsla þrettán bandarískra alríkisstofnana byggist á á rannsóknum sem hafa verið rækilega ritrýndar vill forstjóri Umhverfisstofnunarinnar þar að farið verði ítarlega yfir innihald hennar áður en hún birtist. Forstjórinn er þekktur fyrir að hafna vísindalegri þekkingu á loftslagsbreytingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×