Umfjöllun og viðtöl: Haukar - ÍBV 26-22 | Fjórði sigur Haukakvenna í röð

Viktor Örn Guðmundsson skrifar
Stórleikur 7.umferðar Olís deildar kvenna fór fram á Ásvöllum í kvöld þar sem liðin í öðru og þriðja sæti áttust við.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum og tók myndirnar hér fyrir ofan.

Bæði lið byrjuðu leikin af miklum krafti og var jafnt á fyrstu tölum en í stöðunni 6-6 fór að skilja á milli og Haukastúlkur stigu á bensíngjöfina á meðan ÍBV stigu á bremsuna og leiddu Haukar með 6 marka mun, 15-9 í hálfleik þar sem Maria Ines fór mikinn með 5 mörk úr 5 skotum og var hún allt í öllu í sóknarleik Hauka.

Seinni hálfleikurinn fór heldur óskemmtilega á stað því á 33 mínútu meiddist leikmaður Hauka, Þórhildur Braga alvarlega og var leikurinn stöðvaður í tæplega 40 mínútur á meðan var verið að bíða eftir sjúkraflutningabíl til þess að hlúa að henni vegna þess að sjúkraþjálfarar gátu ekki hreyft við Þórhildi sökum meiðslanna sem hún varð fyrir en svo virðist sem hnéð á leikmanni ÍBV hafi farið harkalega í hálsinn eða hnakkann á Þórhildi.

ÍBV náði að saxa forskot Hauka niður í 1 mark 18-17 um miðjan seinni hálfleik en þá hrökk Elín Jóna markmaður ÍBV í gang og lokaði markinu þegar korter var eftir að leiknum. Að lokum fór svo að Haukar unnu gríðarlega sterkan og sannfærandi 26-22 sigur og fara þar að leiðandi upp í annað sætið þegar sjö umferðum er lokið í Olís deild kvenna.

Af hverju unnu Haukar leikinn?

Það var liðsheild Hauka sem skóp þennan sigur, gríðarlega þéttur og góður varnaleikur í fyrri hálfleik lagði grunninn að þessum sterka sigri, þær voru grimmari í öllum sínum aðgerðum og var sigurinn aldrei í hættu nema á einum tímapunkti í seinni hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Haukum voru þær Guðrún Erla og Maria Ines gríðarlega öflugar sóknarlega og skoruðu lungann af mörkum Haukaliðsins, nýttu færin sín mjög vel og stigu upp þegar þær þurftu. Elín Jóna var einnig frábær í markinu og lokaði því á mikilvægum tímapunktum í seinni hálfeik og endaði með 18 bolta varða. Hjá ÍBV voru útlendingarnir Asun og Greta öflugar sitthvoru megin á vellinum en það var ekki nóg í kvöld.

Hvað gekk illa?

Illa gekk hjá ÍBV að skora í fyrri hálfeik og gæti það verið það sem varð þeim að falli í leiknum, þær voru undir allan leikinn og við það er erfitt að koma til baka, sérstaklega hérna á ásvöllum. Markvarslan hjá ÍBV var ekki nægilega góð og færanýtingin hefði mátt vera betri hjá þeim.

Hvað gerist næst?

Haukar fara á erfiðasta útvöll landsins og mæta Valsstúlkum sem hafa ekki enn tapað leik á tímabilinu og verður það væntanlega hörkuslakur tveggja góðra liða.

ÍBV fær botnlið Fjölnis í heimsókn og verða þær að spila betur en þær gerðu í kvöld til þess að ná úrslitum þar.

Elías: Líðan Þórhildar skiptir meira máli en handbolti

„Líðan Þórhildar skiptir meira máli en handbolti,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Hauka, eftir sigur þeirra gegn ÍBV í kvöld.

„Sjúkraþjálfarar beggja liða vildu ekki taka neinn séns. Þeir ætluðu að rétta hana við en þá fékk hún sting upp í haus og ákveðið var að taka enga sénsa með þetta. Ég ætla bara rétt að vona það besta fyrir hana en við vitum ekki alveg hver staðan er á henni akkúrat núna. Við verðum bara að vona það besta,“ sagði Elías þegar hann var spurður út í meiðsli og líðan Þórhildar Brögu.

Þetta var gríðarlega öflugur og sannfærandi sigur Hauka í kvöld en hvað var það sem skóp þennan sigur?

„Í rauninni framhald af Framleiknum. Við erum að spila gríðarlega góða vörn og erum með góða markvörslu. Það var góð stemming í hópnum og það hjálpar til þegar andinn og liðsheildin er svona,“ sagði Elías.

„Við erum bara að bæta okkur leik frá leik og það er vörn og markvarsla sem er að skila þessu ásamt góðum sóknarleik sem er að slípast betur og betur saman. Ég er sérstaklega ánægður með stelpurnar í kvöld,“ sagði Elías.

„Þetta er líklegast lengsti handboltaleikur sem ég hef tekið þátt í og það hefðu örugglega mörg lið brotnað. Við héldum áfram, lokuðum vörninni og Elín var frábær í markinu. Það sýnir bara hversu mikill karakter býr í þessu liði að ná að klára þetta,“ sagði Elías.

„Mér lýst mjög vel á næsta leik á móti Val á móti sterkasta liðinu í deildinni í dag sem er taplaust. Þetta verður bara mjög skemmtilegt verkefni og við förum bara í þann leik til að vinna eins og alla aðra,“ sagði Elías.

Ásgeir: Vörnin slök og sóknin í molum

 „Vörnin var slök og sóknin í molum í fyrri hálfleik,“ sagði Ásgeir Jónsson einn af þjálfurum ÍBV eftir tapleikinn í kvöld. En hvað var að klikka?

„Það var frekar margt, vörnin var slök en aðallega var sóknin í molum í fyrri hálfleik, 7 mörk skoruð og við vorum að klikka á dauðafærum og þær hirtu öll frákost, sem gerist þegar leikmenn eru með þessa extra einbeitingu sem var Haukamegin í kvöld. Þær eru með hörkuhugafar og það hreinlega vantaði liðs og einstaklingsgæði á löngum köflum í kvöld,“ sagði Ásgeir.

Tekur þú með þér eitthvað jákvætt útúr þessum leik í kvöld?

„Vörnin í seini hálfleik var jákvæð, fengum marga sénsa og fengum upp smá vörslu og höfðum tækifæri til að jafna. Ég er mjög ánægður með Asun, hún hefur verið að bæta sig í hverjum leik og bara algjört „beast” í vörn,“ sagði Ásgeir

Næsti leikur ÍBV er gegn botnliði Fjölnis á heimavelli, hvernig lýst Ásgeiri á þann leik?

„Auðvitað ætlum við að gera betur þar, við þurfum bara ná fram meiri gæðum, algjörlega óháð úrslitum í þeim leik. Við getum gert miklu betur en við höfðum sýnt í vetur þó svo við séum með 9 punkta,“ sagði Ásgeir.

Haukakonur fagna í kvöld.Vísir/Ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira