Innlent

Aðgerðastjórn virkjuð á höfuðborgarsvæðinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björgunarsveitarmenn hafa ekki sinnt neinum útköllum það sem af er degi en aðgerðastjórn hefur verið virkjuð á höfuðborgarsvæðinu.
Björgunarsveitarmenn hafa ekki sinnt neinum útköllum það sem af er degi en aðgerðastjórn hefur verið virkjuð á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm
Veðurviðvaranir eru nú í gildi um allt land en búist er við að óveðrið, sem gengur yfir landið, nái hámarki á áttunda tímanum í kvöld. Björgunarsveitir, lögregla og slökkvilið gera nú ráðstafanir víðsvegar um land en innan- og utanlandsflugferðum hefur verið aflýst og þá hefur hringveginum verið lokað á nokkrum stöðum síðdegis.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafullrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir að dagurinn hafi gengið vel miðað við aðstæður. Aðgerðastjórn hefur nú verið virkjuð á höfuðborgarsvæðinu.

„Það eina sem snertir okkur er að það er búið að virkja aðgerðastjórn á höfuðborgarsvæðinu, þar eru lögregla og björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar, slökkvilið og fleiri,“ segir Davíð Már í samtali við Vísi.

„Að öðru leyti er okkar fólk ekki komið í nein verkefni önnur en lokanir á Hellisheiði og Mosfellsheiði.“

Sjá einnig: Í beinni: Fyrsti stormur vetrarins skellur á

Í fréttum á Bylgjunni klukkan 15 kom fram að vindur á suðvestanverðu landinu hafi farið vaxandi síðan á hádegi. Vindur mældist allt að 35 metrar á sekúndu undir Hafnarfjalli og þá er viðbúið að Suðurlandsvegi verði lokað nú síðdegis. Innanlandsflugi á milli Reykjavíkur og Egilsstaða, Ísafjarðar og Akureyrar hefur verið aflýst í dag, svo og mörgum ferðum með millilandaflugi.

Davíð Már segir engin útköll enn hafa borist björgunarsveitinni í dag þrátt fyrir aftakaveður. Lögreglan hafi þó sinnt einhverjum verkefnum.

„Ég veit til þess að það hafa komið upp einhver smáverkefni, skilti og fötur sem hafa farið á hreyfingu sem lögreglan hefur sinnt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×