Innlent

Flest verkefni á byggingarsvæðum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Fyrsti stormur vetrarins gengur yfir landið í dag. Myndin er úr safni.
Fyrsti stormur vetrarins gengur yfir landið í dag. Myndin er úr safni. Vísir/Pjetur
Um 45 verkefni hafa komið á borð aðgerðarstjórnar björgunarsveita, lögreglu og slökkviliðs á höfuðborgarsvæðinu það sem af er degi. Flest verkefnin hafa verið í iðnaðarhverfum og á byggingarsvæðum. Frímann Andrésson hjá aðgerðarstjórn segir að verktakar hefðu mátt vera betur undirbúnir fyrir veðrið.

„Verkefnastaðan er komin núna upp í 45 verkefni og það er hæg aukning í þessu enda hámarkinu ekki náð í veðrinu,“ segir Frímann í samtali við fréttastofu.

„Það kemur okkur svolítið á óvart að þetta eru mikið verkefni tengt stillansum sem er beint að verktökum sem hefðu getað hugsað þetta aðeins betur fyrirfram, að okkur finnst.“

Hann segir að flest verkefnin séu í iðnaðarhverfum og á öðrum byggingasvæðum.

„Svo eru ýmis minniháttar verkefni sem eru lausamunir að fjúka. Bæði umferðarskilti og annað sem er komið út á miðja götu. En svo er þetta líka mikið tengt þessum iðnaðarsvæðum, eins og ég segi. Hvort sem það eru stillansar eða minni hlutir sem eru komnir af stað.“

Hefur einhver slasast?

„Enginn slasast sem betur fer, ekki hér á höfuðborgarsvæðinu og við vonum að það haldist þannig.“

Um 20 viðbragðshópar hafa verið kallaðir út hingað til.

„Það er hægt og rólega að bæta í það enda veðrið ekki náð hámarki. Svo sjáum við hvað setur seinna í kvöld.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×