Innlent

Stjórnendur björgunarsveita setja öryggi fólks í forgang

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Björgunarsveitin hefur átt í nógu að snúast í dag.
Björgunarsveitin hefur átt í nógu að snúast í dag. Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitir sem kallaðar hafa verið út á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum hafa sinnt yfir þrjú hundruð verkefnum sem hafa komið upp vegna óveðursins. Þetta segir Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Rúmlega tvö hundruð og fimmtíu sjálfboðaliðar björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru nú að störfum og reyna eins og frekast er unnt að takmarka tjón.

Jónas segir að verkefnin hafi verið allumfangsmikil miðað við óveður. Spurður út í helstu verkefni segir Jónas:

„Það er ánægjulegt að trampólínin virðast vera hlutfallslega færri en vanalega en annars er þetta ósköp hefðbundið, þetta eru þök, þakkantar sem eru að fara, það eru að springa út útidyrahurðir og bílskúrshurðir, hjólhýsi að fjúka, auglýsingaskilti og rúður að springa út og svo framvegis.“

Öryggi fólks númer eitt

Í samtali við Vísi sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn sem fer fyrir aðgerðarhópi á höfuðborgarsvæðinu vegna óveðursins, að frágangi verktaka hafi verið mjög ábótavant. Jónas tekur undir með Ásgeiri en segist ekki getað slegið því föstu að það sé meira um slæman frágang nú en áður.

„Ég veit svo sem ekki hvort það sé meira en vanalega en það er náttúrulega meira af framkvæmdum núna en það er alveg ljóst að margir mega huga betur að frágangi. Þetta er hreinlega stórhættulegt stundum að fara inn á þessi svæði.“

Jónas segir að í einstaka tilfellum hafi stjórnendur hópa björgunarsveitanna þurft að hverfa frá byggingarsvæðunum því það hafi reynst of hættulegt að aðhafast þar. „En það er bara eins og við viljum vinna. Við viljum öryggi fólks númer eitt og ákvarðanir eru teknar samkvæmt því,“ segir Jónas.


Tengdar fréttir

Aðgerðastjórn virkjuð á höfuðborgarsvæðinu

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir engin útköll enn hafa borist björgunarsveitinni í dag þrátt fyrir aftakaveður en lögreglan hafi þó sinnt einhverjum verkefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×