Íslenski boltinn

Pablo Punyed kvaddi ÍBV í gær og samdi við KR í dag | Beitir og Pálmi framlengdu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pablo Punyed, Beitir Ólafsson og Pálmi Rafn Pálmason með þeim Rúnari Kristinssyni og Kristni Kjærnested .
Pablo Punyed, Beitir Ólafsson og Pálmi Rafn Pálmason með þeim Rúnari Kristinssyni og Kristni Kjærnested . Vísir/Ernir
Pablo Punyed skrifaði í dag undir þriggja ára samning við KR og mun spila með liðinu í Pepsi-deild karla í fótbolta næsta sumar.

Markvörðurinn Beitir Ólafssson og miðjumaðurinn Pálmi Rafn Pálmason framlengdu einnig samning sinn við KR. Pálmi Rafn skrifaði undir tveggja ára samning en Beitir undir þriggja ára samning.

Pablo Punyed er 27 ára miðjumaður frá El Salvador sem hefur spilað í íslenska boltanum síðan að hann var 22 ára gamall.

Pablo Punyed er þriðji leikmaðurinn sem Rúnar Kristinsson fær til KR-liðsins eftir að hann tók aftur við þjálfun Vesturbæjarliðsins.

Hinir tveir eru bakvörðurinn Kristinn Jónsson sem kom frá Breiðabliki og framherjinn Björgvin Stefánsson sem kom frá Haukum.

Pablo Punyed varð lykilmaður á miðju Eyjaliðsins sem varð bikarmeistari í sumar eftir sigur á FH í úrslitaleiknum. ÍBV vann líka báða leiki sína á móti KR síðasta sumar, 3-1 sigur í Eyjum og 3-0 sigur á móti KR.

Pablo Punyed hefur leikið 92 leiki í efstu deild og er með í þeim sex mörk og fimmtán stoðsendingar. Undanfarin tvö sumur hefur hann gefið níu stoðsendingar með ÍBV en hann er einnig með fimm sendingar að auki sem hafa átt stóran þátt í undirbúningi marka Eyjaliðsins.

Pablo Punyed hefur spilað undanfarin sex tímabil á Íslandi og KR verður fimmta íslenska félagið sem hann spilaði með.

Punyed kom hingað fyrst sumarið 2012 til að spila með Fjölni í 1. deildinni en fór síðan yfir í Fylki og lék með Árbæingum í Pepsi-deildinni 2013 sem var hann fyrsta tímabil í efstu deild á Íslandi.

Punyed varð Íslandsmeistari með Stjörnunni sumarið 2014 og hann spilaði einnig með Garðabæjarliðinu sumarið eftir. Hann var síðan búinn að vera tvö tímabil í Eyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×