Viðskipti innlent

Íhuga skráningu WOW á markað innan tveggja ára

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skúli Mogensen ætlar sér ekki að selja flugfélagið.
Skúli Mogensen ætlar sér ekki að selja flugfélagið. Vísir/Anton Brink
Wow Air kannar nú möguleikana á því að skrá flugfélagið á hlutabréfamarkað árið 2019 að sögn Skúla Mogensen, stofnanda og forstjóra WOW.

Haft er eftir Skúla á vef Reuters að í ljósi örs vaxtar flugfélagsins þurfi það nú að kanna hvaða leiðir því standi til boða svo að halda megi þeirri þróun áfram. Grunnur verði lagður að ákvörðun um framhaldið á næsta ári og skrefið svo stigið árið 2019.

Skúli segir að heildartekjur flugfélagsins verði um milljarður dala árið 2019. Það væri því „áhugaverður“ tímapunktur til að skrá það á hlutabréfamarkað.

„Til að halda vexti okkar áfram þurfum við að líta á fjölda valmöguleika; finna samstarfsaðila, skrá okkur á hlutabréfamarkað og svo framvegis. Við höfum ekki alveg tekið ákvörðun ennþá.“

Þannig hafi fjöldi einstaklinga sagst hafa áhuga á að vinna með flugfélaginu á næstu stigum. Skúli þvertekur þó fyrir að hann ætli sér að selja flugfélagið.

Þá segir hann að WOW gangi nú hart á eftir því að fá tímana sem hið gjaldþrota flugfélag Monarch hafði á Gatwick-flugvelli í Lundúnum.

Wow gerir ráð fyrir að flytja um 3 milljónir farþega í ár, næstum tvöfalt fleiri en í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×