Viðskipti innlent

Kaupir tveggja prósenta hlut í Kviku

Hörður Ægisson skrifar
Áætla má að félag Sigurðar hafi greitt nærri 200 milljónir króna fyrir rúmlega tveggja prósenta hlut í bankanum.
Áætla má að félag Sigurðar hafi greitt nærri 200 milljónir króna fyrir rúmlega tveggja prósenta hlut í bankanum. Vísir/GVA
Sigurður Sigurgeirsson, fjárfestir og fyrrverandi byggingarverktaki í Kópavogi, er kominn í hluthafahóp Kviku eftir að hafa eignast 2,05 prósenta hlut í bankanum. Eftir kaupin er Sigurður, sem er meðal annars í hópi tuttugu stærstu hluthafa tryggingafélagsins VÍS, ellefti stærsti eigandi fjárfestingabankans í gegnum eignarhaldsfélagið Breiðahvarf.

Félagið keypti hlutinn af fjárfestingafélaginu Vörðu Capital, sem er að stærstum hluta í eigu viðskiptafélaganna Jónasar Hagans Guðmundssonar og Gríms Garðarssonar, en það hefur selt allan hlut sinn í Kviku banka, eins og Markaðurinn greindi frá í síðustu viku. Varða Capital var áður fimmti stærsti hluthafi bankans með 7,7 prósenta eignarhlut.

Aðrir kaupendur að hlut Vörðu voru meðal annars Gunnar Sverrir Harðarson og Þórarinn Arnar Sævarsson, eigendur RE/MAX á Íslandi, hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir, sem eiga heildverslunina Johan Rönning, og Einar Sveinsson fjárfestir.

Samkvæmt heimildum Frétta­blaðsins hafa bréf í Kviku verið að ganga kaupum og sölum að undanförnu á genginu 6 til 6,3 krónur á hlut. Því má áætla að félag Sigurðar hafi greitt nærri 200 milljónir króna fyrir rúmlega tveggja prósenta hlut í bankanum.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×