Viðskipti innlent

Óvissa um rekstrarhæfi Kosts

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Jón Gerald Sullenberger er stofnandi og framkvæmdastjóri Kosts en hlutafé verslunarinnar var aukið um 44,5 milljónir í fyrra.
Jón Gerald Sullenberger er stofnandi og framkvæmdastjóri Kosts en hlutafé verslunarinnar var aukið um 44,5 milljónir í fyrra. Vísir/Stefán
Töluverð óvissa er um rekstrarhæfi matvöruverslunarinnar Kosts að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi verslunarinnar. Skammtímaskuldir Kosts, sem rekur verslun við Dalveg í Kópavogi, námu 221 milljón króna í lok síðasta árs en á sama tíma voru skammtímakröfur einungis 163 milljónir.

Í ársreikningnum er tekið fram að þessi óvissa geti hugsanlega haft þær afleiðingar að verslunin geti ekki selt eignir sínar og greitt skuldir við eðlileg rekstrarskilyrði. Stjórnendur Kosts, en Jón Gerald Sullenberger er stofnandi og framkvæmdastjóri verslunarinnar, hafi unnið að því að auka framlegð af vörusölu sem og að draga úr almennum rekstrarkostnaði.

Hlutafé Kosts var aukið um 44,5 milljónir í fyrra og nam eigið fé verslunarinnar tæplega 87 milljónum í lok síðasta árs.

Kostur tapaði 7,8 milljónum króna í fyrra borið saman við 20,5 milljóna króna tap árið 2015. Var vörusala verslunarinnar 1.148 milljónir króna í fyrra og dróst saman um 8,6 prósent á milli ára. Þá jukust rekstrargjöld um 3,5 prósent og námu um 269 milljónum króna í fyrra.

Ekki náðist í Jón Gerald við vinnslu fréttarinnar. Hann sagði í samtali við Fréttablaðið í sumar ljóst að allar verslanir hefðu fundið fyrir áhrifunum af komu Costco til landsins. Kostur væri þar engin undantekning.

„Það er ekki við öðru að búast þegar markaðurinn hér á landi er ekki stærri en þetta,“ sagði hann.

Fréttin birtisti fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×