Lífið samstarf

Íslensk hönnun í bland við heimsfræga klassík

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, og Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.
Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, og Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins. Vísir/Laufey
Hönnun – Leiðsögn í máli og myndum er vönduð og yfirgripsmikil bók fyrir alla unnendur klassískrar hönnunar. Í bókinni eru fallegar myndir og aðgengilegur texti um alþjóðlega og íslenska hönnun.

Bókin er komin í verslanir en það sem sker hana frá öðrum slíkum er sérstakur kafli um íslenska hönnun, að sögn Höllu Helgadóttur, framkvæmdastjóra Hönnunarmiðstöðvar.

„Íslensk hönnun er sett í samhengi við alþjóðlega hönnun á myndrænan og áhugaverðan hátt. Þetta er saga hönnunar í heiminum, allt frá árinu 1850. Íslenski kaflinn er sextán síður þar sem fjallað er um húsgögn og annan húsbúnað, byggingar, listmuni og grafík,“ segir Halla.

Meðal þeirra sem eiga verk í íslenska hlutanum eru Högna Sigurðardóttir, Pétur B. Lúthersson, Dögg Guðmundsdóttir, Goddur, Katrín Ólína Pétursdóttir, Vík Prjónsdóttir, Manfreð Vilhjálmsson, Glit, Álafoss, Umemi og fjöldi annarra.

„Einnig er áhugaverð umfjöllun um íslenska stóla,“ segir Halla og bætir við að sömuleiðis sé fjallað um nútímahönnun og hvert við stefnum í framtíðinni.

„Íslendingar eru ungir þegar kemur að hönnun. Í rauninni erum við varla búin að skilgreina okkar eigin klassísku hönnun en í bókinni er gerð tilraun til þess,“ segir hún.

Bókin er viðamikil og falleg.MYND/LAUFEY
„Mikil aukning hefur orðið á umfjöllun um íslenska hönnun á undanförnum árum auk þess sem Íslendingar eru farnir að meta okkar eigin hönnun, til dæmis frá þeim tíma þegar innflutningur var bannaður á Íslandi, eða fyrir 1970,“ greinir Halla frá.

Í bókinni er meðal annars fjallað um heimsfræga hönnuði á borð við Alvar Aalto, Eileen Gray, Georg Jensen og Philippe Starck.

Elsa Yeoman á útgáfuhófi í Hönnunarmiðstöðinni þegar bókin var kynnt.Vísir/Laufey
Hönnunarmiðstöð var samstarfsaðili Forlagsins við gerð íslenska hluta bókarinnar.

„Forlagið leitaði til okkar og Hönnunarsafns Íslands um ráðgjöf. Bókin hefur áður verið gefin út á ensku en er nú í fyrsta sinn gefin út á íslensku með viðbættum kafla um íslenska hönnun. Hópur fagmanna úr hinum ólíkum greinum hönnunar komu að textagerð og vali á íslensku hönnuninni. Víða var leitað fanga í breiðu samstarfi ólíkra álitsgjafa. Bókin er gagnleg sem uppsláttarrit og fræðirit auk þess að vera falleg og myndræn. Ég myndi segja að hún væri mjög gagnleg til kennslu á ýmsum skólastigum þar sem listræn fög eru í boði. Þarna er íslensk hönnun sett í samhengi við alþjóðlega klassíska hönnun,“ segir Halla.

Greipur Gíslason og Ólöf Rut hjá Hönnunarmiðstöðinni.Vísir/Laufey
Greinin er unnin í samvinnu með Forlaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×