Skoðun

Menntamál í forgang

Steinn Jóhannsson skrifar
Umræða um menntamál var ekki í forgangi í liðinni kosningabaráttu þó fullyrða megi að málefnið sé vissulega forgangsmál í samfélaginu. Allir flokkar voru þó sammála um að efla þyrfti menntakerfið og því verður áhugavert sjá hvað tilvonandi ríkisstjórn muni setja í forgang í þeim málaflokki.

Skólar gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu en í Aðalnámskrá framhaldsskóla segir: „Skólarnir skulu leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöður og þarfir barna og unglinga. Skólastarfið miðar að virkri þátttöku þeirra í lýðræðissamfélagi innan skólans sem utan.“ Þetta er göfugt hlutverk sem framhaldsskólunum ber að uppfylla.

Undanfarin ár hafa fjölmargir skólar þurft að skera niður í stoðþjónustu og tækjakaupum og glíma samhliða við viðvarandi hallarekstur. Nú hefur tilvonandi ríkisstjórn tækifæri til að snúa þessari þróun við og auka fjárframlög til framhaldsskólanna þannig að þeir geti rækt hlutverk sitt með sóma. Einnig er mikilvægt að stjórnvöld haldi því fjármagni inn í framhaldsskólunum sem átti að sparast vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs. Fjármagnið þarf að nota í þágu nemenda, sér í lagi að auka við stoðþjónustu og vinna gegn brotthvarfi.

Því miður hefur brotthvarf framhaldsskólanemenda á Íslandi verið hátt í samanburði við önnur OECD-lönd. Til þess að styðja betur við nemendur í framhaldsskólum og vinna gegn brotthvarfi þarf nauðsynlega að greiða fyrir aðgengi að sálfræðiþjónustu inni í skólunum og efla samstarf á milli heilsugæslustöðva og skóla. Einnig þarf að fjölga náms- og starfsráðgjöfum en víða hefur álag verið mikið á þeim síðustu ár. Einnig mætti athuga að koma á námsstyrkjum sem þekkjast annars staðar á Norðurlöndunum og geta haft jákvæð áhrif á skólastarfið og um leið minnkað vinnu nemenda með námi.

Það er ljóst að tækifærin eru til staðar fyrir tilvonandi ríkisstjórn og forvitnilegt að fylgjast með hvort staðið verði við stóru orðin, þ.e. að bæta menntakerfið og búa þannig nemendum betri framtíð í skólum landsins.

 

Höfundur er konrektor MH.




Skoðun

Sjá meira


×